Stuttu áður en þingfundur hófst klukkan hálf tvö í dag raðaði hópur mótmælenda sér framan fyrir framan innganga Alþingishússins. Að sögn tveggja úr hópi mótmælenda var markmiðið að minna þingmenn á mótmæli flóttafólks, sem stóðu yfir við Alþingi í tæpa viku, og kröfu mótmælenda um samræðu við stjórnvöld. 

Raðaði hópurinn sér upp bæði við inngang þinghússins og inngang að bílastæðum þingsins. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið og segir mótmælin ekki hafa haft áhrif á þinghald. 

Að sögn Helga röðuðu mótmælendur sér fyrir framan aðalinngang og bakdyr þinghússins, sem og fyrir framan bílastæði og hindruðu eða trufluðu aðgengi að húsinu. Ekki kom til neinna ryskinga en lögregla skakkaði að lokum leikinn og handtók að sögn Helga þrjá mótmælendur.

Mótmælin friðsamleg yfirlýsing

„Við mættum þarna rétt fyrir hálf tvö þegar að þingfundur var að byrja og röðuðum okkur fyrir framan alla innganga,“ segir Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir, sem var á mótmælunum í samtali við Fréttablaðið. 

Segir hún markmið mótmælanna hafa verið að vekja athygli á mótmælum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd sem voru á Austurvelli í tæpa viku, en lauk í gær vegna veðurs. Steinunn segir það ekki hafa verið markmið mótmælenda að koma í veg fyrir inngöngu í þinghúsið heldur frekar vekja athygli þingmanna og ráðherra á málefninu. 

„Þessi mótmæli voru fyrst og fremst yfirlýsing um að flóttamenn séu ekki búnir að gefast upp. Við stöndum þarna friðsamlega og það voru margir búnir að skrifa á hendurnar á sér, stöðvið brottvísanirnar, og með límband fyrir munninum til að undirstrika að við vorum ekki þarna með læti,“ segir Bjarni Daníel, annar mótmælandi í samtali við Fréttablaðið. 

„Síðan birtist lögreglan og fer inn í húsið og virðist vera að bíða eftir liðsauka, ekki það að við höfum verið með nein vandræði og engum var meinuð innganga að húsinu,“ segir Bjarni. Þá segir hann lögreglu hafa ítrekað beðið hópinn um að víkja frá aðalinngangi þinghússins, jafnvel eftir að hópurinn færði sig lengra frá innganginum.

„Þeir héldu áfram og fóru að hóta að við ættum yfir höfði okkar handtöku eða refsingu ef að við færum ekki frá hurðinni og héldu áfram að tönnlast á þessu þó við værum farin frá hurðinni.“ Benda Steinunn og Bjarni á að öll fyrirmæli lögreglu hafi farið fram á íslensku þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir mótmælenda um að lögreglan segði fyrirmæli sín á ensku, sem og íslensku. 

 Svo var einn strákur handtekinn að því sem virðist upp úr þurru sem var svolítið undarlegt. Svo fer ein úr okkar hópi að tala við lögregluna til þess að biðja hana um að fara fyrirmælin á ensku og er hún handtekin í kjölfarið. Svo er þriðji strákurinn handtekinn á frekar ofbeldisfullan hátt,“ segir Bjarni að lokum segir hópinn nú bíða eftir upplýsingum frá lögreglu um afdrif félaga sinna. 

Ekki náðist í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við gerð þessarar fréttar.