Þrír hafa verið handteknir og eru nú í haldi í lögreglu vegna hnífstunguárásar í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er málið nú í rannsókn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu.

Að sögn Jóhanns Karls er málið enn á frumstigi og ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur að svo stöddu. Það gerist að öllum líkindum í dag eða kvöld.

Aðspurður segir Jóhann Karl að árásin hafi komið til í kjölfar ágreinings milli hópa manna.

„Það var vitað sirka hverjir þetta væru,“ segir Jóhann, og bætir við að það hafi verið fjöldi fólks á vettvangi sem hafi orðið vitni að þessu. Það hafi tekið lögregluna um klukkutíma að hafa uppi á þremenningunum.

Að öðru leyti vildi Jóhann Karl ekki gefa upp frekari upplýsingar um málið þar sem rannsókn væri skammt á veg komin. Þá hafði hann engar upplýsingar um líðan mannsins sem varð fyrir árásinni

Fréttin verður uppfærð.