Dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti telur þrjá af átta umsækjendum hæfasta til að hljóta skipun í lausa stöðu dómara við Hæstarétt. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Þau þrjú sem um ræðir eru Ingveldur Einarsdóttir, Davíð Þór Björgvinsson og Sigurður Tómas Magnússon. Þau eru öll dómarar við Landsrétt.

Alls sóttu átta um stöðuna og hafa þeir fengið erindi þessa efnis frá dómnefndinni. Frestur þeirra til að gera athugasemdir við matið rann út á föstudaginn. Gera má ráð fyrir að dómnefndin hafi þegar hafist handa við úrvinnslu athugasemda og niðurstaða nefndarinnar gæti því legið fyrir í þessari viku.

Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson tilkynntu ráðherra á haustmánuðum að þeir hygðust láta af embætti við Hæstarétt en þeir urðu 65 ára á árinu sem er að líða. Aðeins einn dómari verður skipaður í stað þeirra tveggja vegna sólarlagsákvæðis í nýjum dómstólalögum um fækkun dómara við Hæstarétt.

Af þeim átta sem gegna stöðu dómara við Hæstarétt er aðeins ein kona, Gréta Baldursdóttir. Gréta er komin á leyfilegan eftirlaunaaldur en í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins í sumar sagðist Gréta ekki vera á útleið úr réttinum að svo stöddu.

Með tilliti til mikils kynjahalla við réttinn þykir þeim sem Fréttablaðið hefur rætt við við líklegast að Ingveldur hljóti skipun í hið lausa embætti. Ingveldur hefur töluverða reynslu af dómarastörfum á öllum dómstigum, en hún var dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur áður en hún var skipuð í Landsrétt. Hún hefur einnig verið sett dómari við Hæstarétt og starfaði þar um nokkurra ára skeið vegna álags við réttinn á árunum eftir hrun.