Al­var­legt um­ferðar­slys átti sér stað á Vestur­lands­vegi á Kjalar­nesi á fjórða tímanum í dag og hafa þrír verið fluttir al­var­lega slasaðir með sjúkrabíl á bráða­mót­töku. Ekki er vitað hver líðan þeirra er að svo stöddu.

Slysið átti sér stað á vegar­kafla á milli Grundar­hverfis á Kjalar­nesi og Hval­fjarðar­ganga þar sem ný­lagt mal­bik var nokkuð sleipt eftir rigningu að sögn Ás­geirs Þórs Ás­geirs­sonar, yfir­lög­reglu­þjóns.

„Það var hópur bif­hjóla­manna á leiðinni í átt að bænum og bíll af stærri gerðinni á leiðinni í gagn­stæða átt. Á þessum sleipa kafla endar eitt bif­hjólið framan á bílnum og annað bif­hjólið endar utan vegar,“ segir Ás­geir í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þyrlan sótti sjúk­ling norðan megin

Þyrla Land­helgis­gæslunnar var einnig send á vett­vang norðan megin við göngin þar sem hún sótti sjúk­ling sem sjúkra­bif­reið hafði verið á leið með til Reykja­víkur.

„Þyrlan náði í sjúk­ling sem hefði annars farið með sjúkra­bíl. Vegna um­ferðar í gegnum göngin var talið heppi­legast að þyrlan myndi flytja við­komandi þar sem erfitt var fyrir sjúkra­bíl að komast í gegnum göngin,“ sagði Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Veginum lokað næstu klukku­stundir

Vestur­lands­vegi hefur verið lokað og hafa myndast langar raðir bíla sitt­hvorum megin við slysstað. „Vegurinn verður lokaður frá Mos­fells­bæ að göngunum í einn til tvo klukku­tíma til við­bótar,“ bætir Ás­geir Þór við.

Lög­regla ráð­leggur fólki að fara Hval­fjarðar­veginn og þaðan Kjósar­skarðs­veg og Þing­valla­leið eða öfugt eftir því hvort ferðinni er heitið norður eða suður.