Þyrla Landhelgisgæslunnar, með tvo lækna innanborðs, lenti skammt frá þar sem snjóflóð skall í Svarfaðardal um 21:10 í kvöld og flutti einn slasaðan einstakling af vettvangi á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Þetta kemur fram í tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Þrír menn af erlendu bergi brotnu urðu fyrir snjóflóðinu sem féll í Svarfaðardal fyrir ofan bæinn Skeið nálægt Dalvík kl. 19:10. Hinir tveir mennirnir voru fluttir af vettvangi með sjúkrabifreiðum á sjúkrahúsið á Akureyri.
Umfangsmiklar björgunaraðgerðir fóru í gang eftir að tilkynnt var um snjóflóðið og er áætlað að um 130 viðbragðsaðilar hafi komið að þeim.
„Við teljum að þetta sé töluvert slys. Það er búið að flytja einn á sjúkrahúsið á Akureyri með þyrlu og er yfirstandandi flutningur á hinum tveimur og frekari greining á þeirra áverkum fer bara fram þar,“ sagði Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn og aðgerðastjóri Lögreglunnar á Norðurlandi eystra, í viðtali á RÚV.
Eru þeir mikið slasaðir, þessir menn?
„Við teljum að þetta sé alvarlegt slys. Það er allavega tilkynnt um útlima- og jafnvel höfuðáverka. Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir á þessu stigi. Þeir fá frekari aðhlynningu og greiningu á sjúkarhúsinu.“
Að sögn lögreglunnar er ekki hægt að veita frekari upplýsingar um málið eða líðan hinna slösuðu að svo stöddu.