Þyrla Land­helgis­gæslunnar, með tvo lækna innan­borðs, lenti skammt frá þar sem snjó­flóð skall í Svarfaðar­dal um 21:10 í kvöld og flutti einn slasaðan ein­stak­ling af vett­vangi á sjúkra­húsið á Akur­eyri til að­hlynningar. Þetta kemur fram í til­kynningu Lög­reglunnar á Norður­landi eystra.

Þrír menn af er­lendu bergi brotnu urðu fyrir snjó­flóðinu sem féll í Svarfaðar­dal fyrir ofan bæinn Skeið ná­lægt Dal­vík kl. 19:10. Hinir tveir mennirnir voru fluttir af vett­vangi með sjúkra­bif­reiðum á sjúkra­húsið á Akur­eyri.

Um­fangs­miklar björgunar­að­gerðir fóru í gang eftir að til­kynnt var um snjó­flóðið og er á­ætlað að um 130 við­bragðs­aðilar hafi komið að þeim.

„Við teljum að þetta sé tölu­vert slys. Það er búið að flytja einn á sjúkra­húsið á Akur­eyri með þyrlu og er yfir­standandi flutningur á hinum tveimur og frekari greining á þeirra á­verkum fer bara fram þar,“ sagði Jóhannes Sig­fús­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn og að­gerða­stjóri Lög­reglunnar á Norður­landi eystra, í við­tali á RÚV.

Eru þeir mikið slasaðir, þessir menn?

„Við teljum að þetta sé al­var­legt slys. Það er alla­vega til­kynnt um út­lima- og jafn­vel höfuð­á­verka. Frekari upp­lýsingar liggja ekki fyrir á þessu stigi. Þeir fá frekari að­hlynningu og greiningu á sjúkar­húsinu.“

Að sögn lög­reglunnar er ekki hægt að veita frekari upp­lýsingar um málið eða líðan hinna slösuðu að svo stöddu.