Þrír standa eftir í baráttunni um formannsstól Íhaldsflokksins, en sigurvegarinn mun jafnframt taka við embætti forsætisráðherra Bretlands af Theresu May. Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, fékk fæst atkvæði í enn einni atkvæðagreiðslunni um formannsstólinn sem fram fór í morgun, eða 34 talsins.

Þeir Boris Johnson, sem fékk 157 atkvæði, Michael Gove, sem fékk 61 atkvæði og Jeremy Hunt, sem fékk 59 atkvæði, standa þrír eftir. Næsta atkvæðagreiðsla fer fram nú síðdegis og verður það kunngjört klukkan 17:15 að íslenskum tíma hvaða tveir frambjóðendur munu keppast um að vinna hylli 160 þúsund flokksmanna Íhaldsflokksins.

Það sem er kannski athyglisverðast við atkvæðagreiðslu morgunsins, hvar einungis þingmenn Íhaldsflokksins tóku þátt, er að Michael Gove komst upp fyrir Jeremy Hunt sem hefur hingað til verið í öðru sæti á eftir Boris Johnson. Sá síðastnefndi hélt hins vegar öruggri forystu líkt og hann hefur gert hingað til og er varla hægt að ímynda sér annað en að Johnson tryggi sig áfram í kapphlaup hinna tveggja formannsefna nú síðdegis.

Ómögulegt er að segja til um hvort Gove eða Hunt fylgi honum en munurinn þeirra á milli hefur verið nokkuð lítill hingað til. Atkvæðagreiðslan á milli flokksmanna Íhaldsflokksins mun fara fram næstu vikurnar og verður sigurvegarinn kynntur hinn 22. júlí næstkomandi en þá mun Theresa May jafnframt láta af embætti forsætisráðherra og afhenda arftaka sínum lyklana að Downingstræti 10.

Frétt BBC um málið.