Þremenningarnir eru Bandaríkjamennirnir William G. Kaelin vísindamaður við Harvard-háskóla, Gregg L. Semenza frá Johns Hopkins-háskóla, og Bretinn Peter J. Rat­cliffe frá Francis Crick-stofnuninni í London.

Dómnefndin segir að vísindamennirnir þrír hafi lagt grunn að auknum skilningi manna á því hvernig súrefnismagn hefur áhrif á efnaskipti og lífeðlisfræðilega starfsemi. Þetta muni leiða til nýrra aðferða í baráttunni gegn sjúkdómum á borð við krabbamein og háfjallaveiki, segir í frétt AP. Annað dæmi væri lyfjaframleiðsla til að koma í veg fyrir blóðskort sem kemur fram hjá fólki með þráláta nýrnaveiki.

Verðlaunahafarnir hafi sýnt hvernig virkni gena breytist eftir breytingum á súrefnisstyrk í umhverfi. Hæfileiki frumna til að aðlagast súrefnisstyrk er talinn lykillinn að því að dýrategundir hafi numið land á svo ólíkum búsvæðum.

Vísindamennirnir þrír, sem vinna að mestu hver í sínu lagi, munu deila á milli sín verðlaunafénu sem nemur níu milljónum sænskra króna, eða um 113 milljónum íslenskra króna.