Blaða­mennirnir Guð­rún Selma Sigur­jóns­dóttir, Sonja Sif Þór­ólfs­dóttir og Lilja Ósk Sigurðar­dóttir voru rang­lega sakaðar um verk­falls­brot í stefnu Blaða­manna­fé­lags Ís­lands (BÍ) gegn Ár­vakri vegna verk­falls­brota mbl.is áttunda nóvember síðast­liðinn. Þetta kemur fram í til­kynningu frá for­manni fé­lagsins Hjálmari Jóns­syni.

Blaða­mennirnir höfðu allar lagt niður störf á settum tíma en fréttir voru birtar í þeirra nafni á meðan á verk­fallinu stóð. Tvær af fjórum vinnu­­stöðvunum fé­lags­manna BÍ hafa þegar farið fram og er mbl.is grunað um í­trekuð verk­falls­brot báða dagana. Vinnu­­stöðvunin á að ná til ljós­­myndara, mynda­töku­manna og frétta­manna á vef­miðlum Frétta­blaðsins, Morgun­blaðsins, Sýnar og RÚV.

Biðst af­sökunar

„BÍ hefur falið lög­manni sínum að laga stefnuna að þessum stað­reyndum. Blaða­konurnar eru beðnar af­sökunar á því að hafa rang­lega verið dregnar inn í máls­rekstur vegna verk­falls­brota­anna. Ár­vakur verður krafinn skýringa á því hver beri á­byrgð á og hafi staðið á bak við birtingu fréttanna að blaða­konunum for­spurðum á meðan vinnu­stöðvunin stóð yfir,“ segir í til­kynningunni.

„Ég styð að sjálf­sögðu kollega mína heils­hugar og myndi aldrei fram­kvæma verk­falls­brot,” sagði Lilja Ósk í tölvu­pósti til BÍ. Sonja Sif sam­mælist því og segir að hún myndi aldrei vinna gegn bar­áttu sem hún styður. „Það er verið að berjast fyrir mínum kjörum í fram­tíðinni.”

Blaða­menn mbl.is lýstu opin­ber­lega yfir von­brigðum sínum með fram­ferði og við­horf rit­stjóra og fram­kvæmda­stjóra Morgun­blaðsins þegar fyrsta verk­fall fór fram. Starfs­menn voru þá kallaði inn til að skrifa fréttir fyrir vefinn á meðan verk­fall blaða­manna net­miðla stóð yfir.

Ein­beittur brota­vilji

Hjálmar í­trekar af­sökunar­beiðni til kvennanna, sem voru að ó­sekju dregnar inn í á­sakanir um lög­brot sem þær báru enga á­byrgð á.

„Þarna er því á ferðinni ó­venju ein­beittur brota­vilji, sem Ár­vakur er einn um og deilir ekki með öðrum aðilum að kjara­deilunni. Dapur­legt við­horf til réttar fólks til að fram­fylgja kröfum sínum með lög­lega boðuðum að­gerðum.“

Ríf­lega fjöru­tíu fréttir birtust á vef Ár­vakurs á meðan á verk­falli blaða­manna stóð, á milli tíu og sex í gær. Í til­kynningunni kemur fram að lög um stéttar­fé­lög og vinnu­deilur séu af­dráttar­laus og að ó­heil­milt sé með öllu að reyna að af­stýra vinnu­stöðvun þegar hún hefur verið lög­lega hafin.

Kæra verkfallsbrotin

„Ár­vakur er eina fyrir­tækið sem brýtur gegn vinnu­stöðvuninni, en fram­kvæmd hennar var til fyrir­myndar á Sýn, RÚV og Frétta­blaðinu. Aflað verður frekari gagna um þessi brot og verður þeim bætt við þau gögn sem lögð verða fram í Fé­lags­dómi við þing­festingu málsins á þriðju­daginn kemur.“