Þrír ár­gangar í Há­teigs­skóla hafa verið sendir í sótt­kví og ein­angrun eftir að smit greindust meðal óbólu­settra nem­enda í fjórða, fimmta og sjötta bekk skólans. Fimmti bekkur skólans mun lík­lega þurfa vera í sótt­kví fram yfir vetrar­frí.

Arn­dís Stein­þórs­dóttir, skóla­stjóri Há­teigs­skóla, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að smit greindist í skólanum eftir að for­eldrar barna byrjuðu að greinast með Co­vid.

„Það sem gerist í raun og veru er það sem Þór­ólfur hefur í­trekað sagt og það er að börnin smita. Þau smita hvort annað. Þetta byrjaði að sýna sig vegna þess að það voru for­eldrar að veikjast af Co­vid og þá fóru heimilin í skimun,“ segir Arn­dís.

„Þá kom í ljós að eitt barn var með mót­efni og enginn hafði vitað af því að það hefði fengið Co­vid. Þannig þetta rúllar þannig af stað.“

Áttatíu manns greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Ekki hafa fleiri greinst á einum degi síðan í lok ágúst.

Spurð um hversu margir eru í ein­angrun og sótt­kví, segir hún það vera um fjöru­tíu börn. Svo eru kennarar í þessum ár­göngum líka í sótt­kví. Spurð um hlut­fall þeirra sem eru með virkt smit, segir Arndís það vera um fjórðungur.

„Þó það sé einn hópur í ár­gangi í sótt­kví eru kannski ekki nema tveir smitaðir. Rakningin virkar bara þannig,“ segir Arn­dís. „Fjórði og sjö­tti bekkur eru að koma til baka úr sótt­kví í vikunni. Fimmti bekkurinn er hins vegar fastur í sótt­kví fram yfir vetrar­frí,“ segir Arn­dís.

Fjórði, fimmti og sjötti bekkur Háteigsskóla eru í sóttkví. Mynd úr safni.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Gerum við okkur grein fyrir því að þetta hefur mikil á­hrif“

Spurð um hvort hún viti hversu margir for­eldrar hafi þurft að fara sótt­kví vegna smitana, svarar hún því neitandi.

„Við auð­vitað höldum ekki utan um þá töl­fræði en auð­vitað gerum við okkur grein fyrir því að þetta hefur mikil á­hrif.“

Kennsla í raun­heimi í þessum ár­göngum hefur verið felld niður en Arn­dís segir að fjar­kennsla sé í gangi. „Við erum að verða nokkuð æfð í þessu að vippa okkur yfir á netið og setja í fjar­kennslu,“ segir Arn­dís.

„Þetta dreifir sig greini­lega hratt á meðal krakkanna. Það er alveg greini­legt,“ bætir hún við.

Arn­dís segir skólann vera halda uppi sótt­vörnum en það sé hins vegar erfitt fyrir yngri börnin að fylgja þeim reglum.

„Eldri krakkarnir geta sinnt sótt­vörnunum betur hin eru auð­vitað ekki á þeim stað. En við höldum upp sótt­vörnum í skólanum en auð­vitað ráðum við ekki neitt ef eitt­hvað fer af stað,“ segir Arn­dís.

„Við eigum eftir að vera í þessu í svona tvö ár í við­bót,“ bætir hún við að lokum.

Helgi Grímsson sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að mikið áhyggjuefni sé að stærsti hluti landsmanna í einangrun séu börn á aldrinum sex til tólf ára. „Það gleymist svo oft í umræðunni þegar við ætlum að minnka takmarkanir að skólarnir okkar eru margir hverjir að glíma við þrálát smit,“ segir hann.

Helgi nefnir sem dæmi að í Norðlingaskóla hafi frá því í september verið sjö sinnum farið í rakningu og mörg börn ítrekað farið í sóttkví.

Helgi segir stöðuna í mörgum skólum þyngri nú en áður.
Fréttablaðið/Ernir

„Delta afbrigðið sem við erum að eiga við núna er meira smitandi en áður og getur verið lúmskt þar sem börn finna fyrir svo litlum einkennum,“ segir Helgi. „Smit eru fátíðari í leikskólum og á unglingastigi en það er töluvert flækjustig núna í þessum aldurshópi. Þetta er í sumum skólum mun þyngri staða en hefur áður komið upp í þessum faraldri.“