Misbrestur er á að flugfélög upplýsi neytendur um rétt farþega til að sækja bætur ef röskun verður á flugi eða þau felld niður.

Óvenju mikið hefur verið um raskanir undanfarið og þá ekki síst í innanlandsflugi Icelandair, eins og Fréttablaðið hefur fjallað um. Ef flug, gildir einu hvort flugið er innanlands eða milli landa, frestast um þrjár klukkustundir eða meira af öðrum ástæðum en veðri eða náttúruhamförum, á farþegi rétt á bótum sem nema ekki lægri fjárhæð en 250 evrum. Það nemur rúmum 35.500 krónum miðað við gengi gærdagsins.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að haugur af málum hafi komið inn á borð Neytendasamtakanna undanfarið. „Þetta eru sumpart árstíðabundnar umkvartanir sem snúa að ferðamennsku, flugfélögum, pakkaferðum og öðru þegar flugfélög seinka ferðum eða fella niður og veita ekki upplýsingar um fullan rétt farþega um bætur og réttindi fólks,“ segir Breki.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Ekki er þó aðeins um árstíðabundið annríki tengt sumarferðalögum að ræða. Vegna vandræða í innanlandsfluginu segir Breki mikilvægt að benda farþegum á að þeir eigi rétt á stöðluðum bótum sem nema 250 evrum ef flug þeirra frestast um meira en þrjá tíma eða er fellt niður.

„Það er ESB Evróputilskipun sem tryggir okkur þessi réttindi,“ segir Breki.

Hann segir marga hafa leitað til Neytendasamtakanna vegna innanlandsflugsins en einnig eigi Íslendingar í útistöðum við erlend flugfélög og ferðaskrifstofur sem hækka verð eftir að farþegar telja sig hafa greitt fullnaðarverð.

Farþegi sem telur sig eiga rétt á bótum getur nálgast eyðublað á vef Samgöngustofu.

„Því miður er það þannig að Ice­landair upplýsir ekki alla farþega um þessi réttindi,“ segir Breki.

Annað mál sem er neytendasamtökum víða um heim hugleikið þessa dagana tengist sögulegu álagi á flestum flugvöllum heimsins. Í kjölfar ferðasprengju að loknum lamandi áhrifum heimsfaraldurs Covid hefur ekki tekist að manna störf margra starfsmanna á flugvöllum eftir samdrátt. Þannig getur öryggisskoðun tekið marga klukkutíma. Mörg dæmi eru undanfarið um að farþegar sem mæta á réttum tíma fyrir brottför nái ekki að komast í tæka tíð að hliði sínu og missi því af flugi.

Eftir því sem fram kemur hjá formanni Neytendasamtakanna eru dæmi um að það taki farþega allt að fimm klukkustundir að komast um flugstöð frá anddyri á leiðarenda. Sögð eru dæmi um að afköst flugvalla séu innan við 50 prósent miðað við hefðbundið ástand. Regnhlífasamtök neytendafélaga víðs vegar í Evrópu eru að undirbúa prófmál til úrskurðar eða dóms þar sem svarað verður hvort flugfélög beri ábyrgð á farþega á flugvelli eða einstaklingurinn sjálfur.

Fréttablaðið náði ekki tali af Ice­landair til að fá viðbrögð flugfélagsins við gagnrýni formanns Neytendasamtakanna.

Icelandair sagði fyrr í vikunni að tímaáætlun hafi staðist í fjórum af hverjum fimm flugum innanlands síðustu vikur og hafi orðið bragarbót.