Maður, sem í dag hlaut dóm í Héraðdómi Reykjaness fyrir umferðarlagabrot, hefur 46 sinnum orðið uppvís að akstri sviptur ökurétti og níu sinnum hlotið dóm fyrir það. Dómurinn var harðorður í hans garð og vegna ítrekunaráhrifa var refsingin fyrir brotið sem dómurinn varðar sjö mánuðir. Auk þess bættust við eftirstöðvar fyrri dóms sem voru 1023 dagar. Því var maðurinn dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi.

Maðurinn var ákærður fyrir að aka bifreið um Kársnesbraut við Borgarholtsbraut í Kópavogi sviptur ökuréttindum, en lögregla veitti honum eftirför í janúar á þessu ári.

„Flóttalegur að sjá“

Samkvæmt tveimur lögregluþjónum, sem voru að sinna umferðareftirliti, sáu þeir manninn keyra fram hjá sér úr gagnstæðri átt og fannst þeim hann vera „flóttalegur að sjá“. Því hafi þeir flett bifreiðinni upp í ökutækjaskrá og séð að eigandinn væri sviptur ökuréttindum. Því áváðu þeir að snúa bifreiðinni sinni við og hefja eftirför.

Þeim bar saman um að þeir hafi misst sjónar á bifreiðinni í örskamma stund er hún beigði inn í Hlégerði. Því hafi þeir kveikt á aðvörunarljósum og staðnæmst fyrir utan íbúðarhús, en þar hafi bifreiðin verið, og fullyrða lögreglumennirnir að maðurinn hafi verið ökumaður hennar.

Þeir segja að maðurinn hafi gengist við því að hafa ekið bifreiðinni og staðfest það með nafnritun sinni.

Neitaði sök

Fyrir dómi neitaði maðurinn þó sök og kvaðst ekki hafa ekið bifreiðinni. Hið rétta væri að hann hafi sest inn í bifreiðina og fengið sér að reykja og lögregla komið að og tekið hann tali.

Hann segist hafa verið úti að bíða eftir manni sem ætlaði að kaupa bílinn en orðið kalt og farið inn í hann.

Misvísandi og mótsagnakenndur framburður

Dómara þótti farmburður mannsins misvísandi og mótsagnakenndur. Á móti kemur þótti honum framburður lögregluþjónana trúverðugur, og þeir metnir hlutlausir. Því þótti vera komin ótvíræð og lögfull sönnun um sekt mannsins.

46 sinnum uppvís að akstri sviptur ökurétti.

Fram kemur að maðurinn eigi langan sakaferill að baki, sem nái aftur til ársins 2013, og varðar fyrst og fremst umferðarlagabrot, en atvikinu sem lýst er í dómnum var 46. skipti sem hann varð uppvís að akstri sviptur ökurétti.