Karl­maður á Stykkis­hólmi hefur verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að brotist inn á fimm mis­munandi stöðum þar í bænum og stolið öllu sem hönd á festi ef marka má gögn málsins.

Inn­brots­hrinuna hóf þjófurinn að­fara­nótt sunnu­dagsins 1. mars í fyrra er hann braust inn í Vigtar­skúrinn á Hafnar­götu í með því að brjóta rúðu í úti­dyra­hurð. Þar stal hann tveimur USB lyklum, tveimur Motor­ola hleðslu­stöðvum, einu vasa­ljósi, tveimur Master­lock lykla­húsum og einni Milwaukee skrúfu­vél.

Sömu nótt braust maðurinn inn í hús­næði Sæ­ferða á Smiðju­stíg, einnig með því að brjóta rúðu í úti­dyra­hurð. Hjá Sæ­ferðum tók hann með sér þremur Zoon húfum, þremur 66°Norður húfum, Cintamani peysu, sjö háls­menum, sjö lykla­kippum, fimm rauð­víns­flöskum og 18 þúsund krónur í reiðu­fé.

Þá var hinn dæmdi fundinn sekur um eigna­spjöll með því að hafa um svipað leyti brotið rúðu í hóp­ferð­bíl við Hafnar­skúrinn á Súgandis­eyjar­götu í Stykkis­hólmi, og sprautað úr slökkvi­tæki inn í bílinn.

Fjórða af­brotið framdi maðurinn í kringum mið­nætti þriðju­dagsins 3. mars. Þá braut hann rúðu í úti­dyra­hurð Ráð­hússins í Stykkis­hólmi og stal sam­tals 20 lyklum.

Að endingu hlaut maðurinn dóm fyrir hús­brot og eigna­spjöll með því að hafa sama kvöld brotist inn hjá Agust­son ehf. og brotið rúður í þremur hurðum „og ruðst heimildar­laust inn í hús­næðið,“ eins og segir í á­kærunni.

Hinn á­kærði mætti ekki til þing­halds fyrir dómi og var það jafnað til þess að hann hefði játað brot sín sam­kvæmt niður­stöðu Héraðs­dóms Vestur­lands.

„Sam­kvæmt saka­vott­orði hefur á­kærði frá árinu 2018 gengist undir þrjár lög­reglu­stjóra­sáttir. Nú síðast 17. ágúst 2020 gekkst á­kærði undir lög­reglu­stjóra­sátt þess efnis að hann greiddi 180 þúsund króna sekt fyrir brot gegn lögum um á­vana-og fíkni­efni. Þau brot sem á­kærði hefur nú verið sak­felldur fyrir voru framin áður en hann gekkst undir fyrr­greinda sátt og ber því að gera á­kærða hegningar­auka,“ segir í dóminum.

Var hæfi­leg refsing sögð vera þriggja mánaða fangelsi sem væri þó skil­orðs­bundinn til tveggja ára og falli niður eftir þann tíma haldi maðurinn skil­orð. Þá var honum gert að greiða kröfu upp á tæpar 190 þúsund krónur sem skaða­bætur frá rútu­fyrir­tækinu sem átti hóp­ferða­bílinn.