Dóttur Leu Gestsdóttur Gayet, Lovísa, er tæplega þriggja ára og hefur aldrei verið á leikskóla þrátt fyrir að viðmið flestra bæjarfélaga sé um 18 mánaða. Lea á eina viku eftir að sumarleyfi sínu og fékk svar í morgun að dóttir hennar fái pláss á leikskólanum Múlaborg þar sem, samkvæmt vef Reykjavíkurborgar, er verið að bæta við 60 nýjum plássum við þau 80 sem fyrir voru.

Leikskólinn er staðsettur í Ármúla. Á vef Reykjavíkurborgar segir að leikskólinn eigi að hefja starfsemi í ágúst á þessu ári en þó settir við það ýmsir fyrirvarar.

„Mér var sagt í samtali við leikskólastjóra að hún geti byrjað 15. september, en þó með fyrirvara um mönnun og að allt annað gangi eftir,“ segir Lea.

„Þetta er eins og þegar hún fékk pláss á Eggertsgötu, alltaf fyrirvarar, og engin afgerandi svör. En ég samþykkti plássið,“ segir Lea en hún sótti fyrst um pláss fyrir dóttur sína í Reykjavík þegar hún var tæplega tólf mánaða og fékk að enda pláss á Eggertsgötu. Hún byrjaði þó aldrei þar vegna framkvæmda og skorts á starfsfólki. Hún segir að henni hafi á sínum tíma einnig verið boðið pláss í Breiðholti og Grafarholti en að það hafi einfaldlega verið of langt í burtu.

„Ég flutti síðan í Kópavoginn í nokkra mánuði, þá fékk hún pláss á leikskóla sem heitir Furugrund, en byrjaði aldrei,“ segir Lea.

Lovísa og Lea í sumarfríi í sumar.
Mynd/Aðsend

Getur ekki mætt til vinnu í næstu viku

Lea á, eins og áður segir, að mæta til vinnu í næstu viku og segir erfitt að vita ekki hvar barnið eigi að vera og hvort hún geti hreinlega mætt. Hún er einstæð en á þó kærasta og er með lítið bakland í Reykjavík og getur því ekki leitað til sinna nánustu eftir aðstoð.

Í staðinn fyrir að vera að einbeita sér að jafnlaunavottun þá á að einbeita sér að því að koma börnum á leikskóla svo ég geti farið í vinnuna. Þannig náum við jafnrétti

Lea segir að það eina sem hún hafi heyrt frá borginni er að dóttir hennar fái pláss í haust en segir það ekki nóg og kallar eftir nákvæmari dagsetningu svo hún geti sett upp einhvers konar plan, fyrir sig og sinn vinnuveitenda.

„Ég er í vinnu og veit ekki hvernig næsta vika verður hjá mér. Ég þarf bara að vita hvenær hún fær pláss. Þá get ég skipulagt líf mitt í kringum það. Í staðinn fyrir að vera að einbeita sér að jafnlaunavottun þá á að einbeita sér að því að koma börnum á leikskóla svo ég geti farið í vinnuna. Þannig náum við jafnrétti,“ segir Lea og að hún sé orðin örvæntingarfull.

Lovísa verður þriggja ára í janúar. Lea sótti fyrst um hana í leikskóla þegar hún var tæplega eins árs.
Mynd/Aðsend

Lúkki betur að bjóða pláss sem aldrei verður að raunveruleika

Lea er gagnrýnin á framkvæmd innritunar og biðlistans í Reykjavík og segir að hún hafi fengið það á tilfinninguna þegar dóttir hennar fékk pláss á Eggertsgötu að það hafi aðeins verið til að taka hana af biðlistanum en plássið var alltaf háð framkvæmdum sem kláruðust aldrei og mönnun sem ekki tókst að uppfylla. Dóttir hennar var þá ekki á biðlista lengur en þó fékkst enginn tímarammi eða dagsetning um það hvenær hún kemst að svo hægt sé að skipuleggja daglegt líf og vinnu.

„Mér líður eins og það sé verið að taka Lovísu af listum svo þetta lúkki vel. Það er mín tilfinning því í raunveruleikanum er ég ekki með neitt í höndunum. Þá kannski lækka opinberar tölur um börn á biðlista, en raunveruleikinn er sá að þá hefst nýr kafli: hvenær kemst barnið á leikskólann sem það er tæknilega séð er komið inn á?,“ segir Lea.

Borgarfulltrúi segir málið flókið og margt enn óljóst

Hún setti fyrr í vikunni inn færslu um málið á Facebook-síðu sína þar sem Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata svaraði henni en hún situr í skóla- og frístundaráði borgarinnar. Alexandra segir að hún geti ekki ímyndað sér að dóttir hennar komist ekki að en að mögulega gæti það verið í leikskóla sem ekki er óskaskólinn. Tekið skal fram að færslan var sett inn áður en Lea fékk pláss á Múlaborg.

„Þetta er náttúrulega bara mjög flókið og margt sem er óljóst akkúrat á þessum tíma. Sérstaklega af því það er svo margt sem er í uppbyggingu og ekki alveg á hreinu hvenær klárast eða hvernig gengur að manna. Við erum að vinna í nýju skráningarkerfi sem ætti að gera þetta aðeins einfaldara, þó það sjái ekki í gegnum þau tilteknu vandamál, en þetta er því miður bara óljóst og það er erfitt að gefa skýrari svör af því það væri þá kannski ekki hægt að standa við þau,“ segir Alexandra við færsluna hennar Leu.

Ekki einn biðlisti

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Fréttablaðið að erfitt sé að svara til varðandi barn Leu og nefnir að það sé vegna þess að ekki sé inn biðlisti heldur miðast það við val foreldra hvernig biðlisti barnsins er.

Í vor var greint frá því á vef Fréttablaðsins að 1.500 börn hafi fengið boð um pláss en samkvæmt upplýsingum frá Hjördísi liggur ekki enn fyrir hvernig innritun þeirra hefur gengið og hversu mörg hafa nýtt plássið sem þau fengu boð um.

Fréttin hefur verið uppfærð.