Reebar Abdi Mohammed var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðs­dómi Reykja­víkur fyrir nauðgun á kvenna­salernis­bás í Reykja­vík í febrúar árið 2019.

Reebar, sem er 34 ára karl­maður frá Kúrdistan hefur tekið þátt í starfi Pírata­flokksins hér­lendis en hann var kjörinn á­heyrnar­full­trúi fram­kvæmda­ráðs Pírata á aðal­fundi flokksins á Sel­fossi árið 2018.

Í dómi Héraðs­dóms segir að Reebar hafi haft sam­ræði og önnur kyn­ferðis­mök við konu, án hennar sam­þykkis með því að beita hana of­beldi og ó­lög­mætri nauðung og nýta sér yfir­burði sína vegna að­stöðu og afls­munar.

Hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum á­hrifa á­fengis en Reebar kom að henni þar sem hún stóð fyrir framan kvenna­salerni skemmti­staðarins, kyssti hana og leiddi hana inn á salernið og inn á salernis­bás, lagði hönd hennar á ber kyn­færi sín, dró niður um hana buxurnar og stakk fingrum í leg­göng hennar og sneri henni síðan við og þvingaði eða reyndi að þvinga lim sínum í leg­göng hennar.

Hann reyndi síðan að láta hana hafa við sig munn­mök en þá komst hún undan. Hún reyndi í­trekað með örðum að at­höfnum að fá Reebar til að láta af hátt­semi sinni en hann greip um hár hennar. Hún hlaut sprungu ofan sníps, roða, sár og mar á hymen og sprungu á spöng.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm yfir manninum í dag.
Fréttablaðið/GVA

Upptökur ekki í samræmi við framburð ákærða

Reeber viður­kenndi fyrir dómi að hafa hitt konuna á skemmti­staðnum en neitaði því að hafa beitt hana of­beldi eða þvingað hana til kyn­lífs­at­hafna. Hann hélt því fram að hún hefði beðiði hann um að hafa við sig sam­ræði á salerninu.

Í yfir­heyrslum yfir honum hjá lög­reglu hélt Reebar því í­trekað fram að hann hafi hitt konuna á dans­gólfinu og hún hefði leitað til hans. Upp­tökur úr eftir­lits­mynda­kerfi skemmti­staðarins stað­festu hins vegar ekki frá­sögn hans.

Hann breytti síðan frá­sögn sinni fyrir dómi og sagðist hafa hitt konuna á salerninu.

Fram­burður konunnar var hins vegar talin trú­verðugur og var inn­byrðis sam­ræmi í frá­sögn hennar að mati dómsins. Hún lýsti því hvernig hún reyndi að klemma saman læri sín til að varna við því að henni yrði nauðgað. Skoðun læknis á Neyðar­mót­töku, læknis­vott­orð, frá­sagnir vinar konunnar, öryggis­varðar á skemmti­staðnum, lög­reglu­manna og hjúkrunar­fræðings á Neyðar­mót­tökunni studdu frá­sögn hennar.

Kjörinn áheyrnarfulltrúi í framkvæmdaráði Pírata 2018

Sam­kvæmt frétt Eyjunnar frá 2018 kemur fram að Reeber var kjörinn á­heyrnar­full­trúi fram­kvæmda­ráðs Pírata á aðal­fundi flokksins á Sel­fossi. Þar er vísað í frétta­til­kynningu frá Pírötum þar sem segir að Reebar væri hælis­leitandi frá Kúrdistan og hefði verið virkur í starfi Pírata.

Vísir greindi fyrst frá dómi Reebar og sendu Píratar frá sér til­kynningu eftir há­degi þar sem kemur fram að flokkurinn hafi fyrst heyrt af þessu máli í fjöl­miðlum og að Reebar hafi ekki haft neina að­komu að starfi Pírata í u.þ.b. tvö ár.