Maður á fertugsaldri í Þýskalandi var í síðustu viku dæmdur í þriggja ára fangelsi og úrskurðað að hann mætti aldrei eignast dýr vegna brota á dýravelferðarlögum.

Meðal sönnunargagna voru myndbönd sem maðurinn tók upp við það að pynta og að drepa rottur.

Þýskir fjölmiðlar fjalla um málið í dag sem átti sér stað í Bæjarahéraði. Hann var áður dæmdur í 33 mánaða fangelsi á lægra dómstigi en mun áfrýja nýjasta úrskurðinum samkvæmt verjanda hans.

Í dómsmálinu var greint frá því að maðurinn hefði drepið fjórar rottur með því að stinga þeim inn í örbylgjuofn og kveikja á ofninum.

Hann hefði einnig meðal annars pönnusteikt rottu og borið að þeim olíu og kveikt í þeim.

Saksóknarinn sagði að það virtist veita manninum ánægju að pynta rotturnar á eins fjölbreytilegan hátt og mögulegt væri.