Fyrrum lyfsali í Wisconsin í Bandaríkjunum hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að vísvitandi eyðileggja meira en 500 skammta af bóluefni við Covid-19.

Milwaukee Journal Sentinel greinir frá því að Steven Brandenburg hafi játað á sig tvo ákæruliði sem snúa að því að eiga við vörur sem ætlaðar eru neytendum. Upp komst um Brandenburg á sjúkrahúsi í desember síðastliðnum, hafði hann þá tekið 57 skammta af bóluefni Moderna úr kæli til að þess að eyðileggja virkni bóluefnisins.

Brandenburg átti yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Brandenburg hefur verið með ökklaband frá því í febrúar.
Mynd/Lögreglan í Milwaukee

Samkvæmt ákærunni er Brandenburg mikill áhugamaður um samsæriskenningar og taldi hann víst að bóluefni við Covid-19 væru í raun ætluð til að breyta erfðaefni fólks til að valda því varanlegum skaða. Það er ekki raunin.

Þá sagði fyrrverandi eiginkona hans að Brandenburg væri að safna að sér mat og byssum.

Brandenburg baðst afsökunar á hegðun sinni við dómsuppkvaðninguna í gær. „Ég hafði engan rétt á að taka þessa ákvörðun,“ sagði hann.