Af þeim sem taka afstöðu í Reykjavík vilja 34 prósent að Dagur B. Eggertsson verði áfram borgarstjóri. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents. Í könnun 28. apríl fékk Dagur 30 prósenta fylgi.

Dagur er með meira en helmingi meira fylgi en Hildur Björnsdóttir hjá Sjálfstæðisflokknum, sem hefur 16 prósent og missir 3 prósentustig milli kannana. Einar Þorsteinsson Framsóknarflokki er með 15 prósent, sem er bæting um 2.

Dóra Björt Guðjónsdóttir hjá Pírötum hefur 11 prósent, Sanna Magdalena Mörtudóttir hjá Sósíalistum 10, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Viðreisn 5, Kolbrún Baldursdóttir Flokki fólksins 4, Líf Magneudóttir Vinstri grænum 3 og Ómar Már Jónsson Miðflokki 1 prósent. Aðrir mælast ekki.

Dagur hefur mest fylgi eigin flokksmanna, 91 prósent, og hefur fylgi hjá stuðningsmönnum allra annarra flokka nema Miðflokksins. Líf Magneudóttir hefur minnst fylgi eigin flokksmanna, 46 prósent, en 39 prósent stuðningsfólks VG vilja Dag sem borgarstjóra. Dagur hefur einnig meira en 20 prósenta fylgi stuðningsfólks Viðreisnar og Pírata.

Mest fylgi hefur Dagur í miðborginni, 59 prósent, en hann leiðir í flestum hverfum borgarinnar. Í Grafarholti og Úlfarsárdal deilir hann þó forystunni með Einari Þorsteinssyni. Kolbrún Baldursdóttir leiðir í Breiðholtinu með 25 prósenta fylgi og Hildur Björnsdóttir í Grafarvogi með 24 prósent.

Dagur hefur meiri karlhylli en kvenhylli, 38 prósent á móti 30. Könnunin var net­könnun gerð 5. til 9. maí. Úr­tak var 1.750 ein­staklingar og svar­hlut­fallið 50,4 prósent.