Þriðjungur ís­lensku þjóðarinnar hefur miklar á­hyggjur af því að CO­VID-19 kóróna­veiran berist til landsins sam­kvæmt þjóðar­púls Gallup. Þjóðin skiptist nokkuð jafnt í fylkingar þegar kemur að ótta við veiruna en þriðjungur segist lítið óttast sjúk­dóminn og sama óttast það hvorki mikið né lítið.

Konur óttast frekar en karlar að veiran berist til landsins og í­búar lands­byggðarinnar óttast það meira en í­búar höfuð­borgar­svæðisins. Þeir sem kysu Fram­sóknar­flokkinn ef gengið yrði til al­þingis­kosninga í dag eru lík­legri til að óttast það mikið en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem óttast mest að veiran berist til landsins eru hins vegar þeir sem myndu skila auðu eða ekki kjósa.

Framsóknarmenn óttast frekar að COVID-19 veiran berist til landsins en þau sem kjósa aðra flokka.
Mynd/Gallup

Dreifist milli landa

Sjúk­­dómurinn hefur þegar dreift sér til 27 landa og hafa yfir­­völd fjölda landa sett sér­­s­taka við­bragðs­á­ætlun í gang til að hefta út­breiðslu sjúk­­dómsins. Sótt­varnar­læknir á Ís­landi lýsti yfir ó­vissu­stigi vegna sjúk­dómsins í lok janúar.

Alls hafa rúm­lega 1100 manns látist vegna bráðrar lungna­bólgu af völdum kóróna­veirunnar. Yfir­gnæfandi meiri­hluti látinna eru kín­verskir ríkis­borgarar og að­eins tveir hafa látist vegna sjúk­dómsins utan Kína.

Meiri menntun, minni ótti

Lands­menn virðast óttast það minna að smitast af veirunni en um fimmtungur þjóðarinnar óttast mikið að smitast af veirunni en nær helmingur óttast það lítið.

Konur óttast frekar en karlar að smitast af veirunni. Fólk óttast síður að smitast af veirunni eftir því sem það hefur meiri menntun að baki. Þeir sem kysu Vinstri græn, Fram­sóknar­flokkinn eða Mið­flokkinn eru lík­legri til að óttast það mikið en þeir sem kysu aðra flokka. Þeir sem kysu Pírata eru hins vegar lík­legri til að óttast það lítið en þeir sem kysu aðra flokka.

Konur óttast frekar að smitast af veirunni en karlar.
Mynd/Gallup