Rúmur þriðjungur landsmanna ætlar í frí til útlanda á árinu eða hefur þegar farið, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið.Aðeins sjö prósent svarenda höfðu þegar farið til útlanda en 28,2 prósent sögðust ætla í frí til útlanda. Hins vegar sögðust 57,9 prósent ekki ætla til útlanda og rúm níu prósent vissu ekki hvort þau færu.

Þeir sem hæst hafa laun eru líklegastir til að ferðast til útlanda en að öðru leyti er frekar jöfn dreifing meðal þjóðfélagshópa. Fólk á aldrinum 24 til 44 ára er þó síst líklegt til ferðalaga út fyrir landsteinana.

Þá eru íbúar höfuðborgarsvæðisins mun líklegri til utanferða en fólk af landsbyggðinni, en 45 prósent höfuðborgarbúa hafa farið eða ætla í frí til útlanda en aðeins 29 prósent af landsbyggðinni. Þá ætla 56 prósent kjósenda Viðreisnar í frí til útlanda, eða hafa þegar farið, og eru þeir mun líklegri til slíkra ferðalaga en kjósendur annarra flokka.

Könnunin var send á könnunarhóp Prósents og svartími var frá 15. til 23. júlí en á miðju því tímabili fór fjöldi smita innanlands að aukast á ný eftir nokkrar rólegar vikur í faraldrinum.

Að sögn Þráins Vigfússonar, hjá ferðaskrifstofunni Vita, kom kippur í bókanir utanlandsferða um verslunarmannahelgina eftir að útihátíðum var aflýst vegna hertra aðgerða innanlands.

Vegna þess hve smitum hefur fjölgað að undanförnu verður Ís­land rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu í næstu viku óháð því hversu mörg smit greinast á næstu dögum. Þetta kann að hafa áhrif á utanlandsferðir Íslendinga og áætlanir þeirra sem svöruðu könnuninni.Í könnunarhópi Prósents voru 2.600 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri, og voru svör þeirra vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Svarhlutfall var 52 prósent.