Fjár­hagur er erfiður hjá þriðjungi heimila sam­kvæmt nýrri könnun Prósents. Hjá 24 prósentum ná endar með naumindum saman um hver mánaða­mót en 10 prósent safna skuldum eða þurfa að ganga á eigið spari­fé til að ná endum saman.

Hjá tekju­lægsta hópnum, með undir 400 þúsund krónur í laun, eru 77 prósent í þessari stöðu og þar af 46 prósent í mínus.

Könnunin var net­könnun fram­kvæmd 28. júlí til 4. ágúst. Úr­takið var 1.750 og svar­hlut­fallið 53,5 prósent.

43 prósent af þeim sem hafa tekjur á bilinu 400 til 800 þúsund krónur eru á núlli um hver mánaða­mót og 15 prósent þeirra í mínus.

Staðan er á­berandi verst á Reykja­nesi. Þar eru 57 prósent íbúa annað hvort á núllinu eða í mínus um hver mánaða­mót. Í heildina litið er fjár­hagur heimila verri á lands­byggðinni en á höfuð­borgar­svæðinu, og er munurinn 8 prósent. Í tveimur lands­hlutum mældist fjár­hagurinn þó betri en á höfuð­borgar­svæðinu, það er á Vestur­landi og Austur­landi.

Munurinn á fjár­hags­stöðu eftir kynjum mældist ekki jafn mikill og munurinn eftir bú­setu­svæðum. Fleiri konur eru þó í fjár­hags­erfið­leikum og er sá munur 3 prósent.

Nærri helmingur svar­enda könnunarinnar, það er 49 prósent, sögðust geta safnað svo­litlu spari­fé um hver mánaða­mót. 16 prósent sögðust geta safnað tals­verðu spari­fé.

Af þeim sem eru í efsta tekju­hópnum, með heimilis­tekjur upp á 1,5 milljón krónur eða meira, eru 88 prósent með af­gang um hver mánaða­mót, 42 prósent tals­verðan.

Þegar litið er til aldurs er fólk á aldrinum 55 til 64 ára í bestri stöðu. 77 prósent þess á af­gang um hver mánaða­mót. Staðan er á­þekk í öðrum aldurs­hópum nema þeim yngsta, 18 til 24 ára. Þar voru fáir á núllinu um hver mánaða­mót en margir sem annað hvort geta safnað tals­verðu spari­fé eða skuldum.

Könnunin var net­könnun fram­kvæmd 28. júlí til 4. ágúst. Úr­takið var 1.750 og svar­hlut­fallið 53,5 prósent.