Þriðjungur lands­manna ber mikið traust til þjóð­kirkjunnar. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðar­púlsi frá Gallup en hlut­fall þeirra sem bera mikið traust til kirkjunnar er sam­bæri­legt og fyrri ár. Um 36 prósent bera lítið traust til kirkjunnar auk þess sem þriðjungur ber hvorki mikið né lítið traust til hennar.

Þá er um helmingur, eins og fyrri ár, hlynntur að­skilnaði ríkis og kirkju. Um 23 prósent eru á móti að­skilnaði ríkis og kirkju.

Helst er það fólk undir fer­tugu sem er hlynnt að­skilnaði og svo fólk yfir sex­tugt sem er and­vígt honum. Þá er fólk lík­legra til að vera hlynnt að­skilnaði ef það býr á höfuð­borgar­svæðinu eða er með meiri menntun. Kjós­endur Pírata virðast hlynntust að­skilnaði en kjós­endur Mið­flokksins mest á móti því.

Einnig er spurt um við­horf fólks til starfar biskups Ís­lands, Agnesar M. Sigurðar­dóttir, en um 15 prósent eru á­nægð með störf hennar sem er svipað hlut­fall og fyrri ár og svo eru um 27 prósent ó­á­nægð með störf hennar. Hér að neðan má sjá mynd sem sýnir þróun á á­nægju með störf biskups Ís­lands.

Fólk yfir fer­tugt er á­nægðara með störf biskups en yngra fólk er ó­á­nægðara. Kjós­endur Vinstri Grænna eru á­nægðari með störf hennar en þau sem kysu aðra flokka.

Ánægja með störf biskups í gegnum árin.
Mynd/Þjóðarpúls Gallup

Munur eftir aldri og stjórnmálaskoðunum

Mikill munur er á því hversu mikið traust ber til kirkjunnar eftir því hversu gamalt það er. Um helmingur þeirra sem eru yfir sex­tugu bera mikið traust til kirkjunnar en að­eins 14 prósent þeirra sem eru undir þrí­tugu. 56 prósent þeirra sem eru á aldrinum 30 til 39 ára bera lítið eða ekkert traust til kirkjunnar.

Þá er einnig munur eftir því hvað fólk myndi kjósa til Al­þingis eftir því hversu mikið traust þau bera til kirkjunnar en kjós­endur Sósíal­ista­flokksins og Pírata bera minnst traust til kirkjunnar en kjós­endur Mið­flokksins, Sjálf­stæðis­flokksins og Flokks fólksins bera mest traust til hennar.

Hægt er að kynna sér niður­stöðurnar nánar hér.