Aðalheiður Ámundadóttir
aa@frettabladid.is
Laugardagur 2. janúar 2021
12.00 GMT

Dóma­fram­kvæmd Lands­réttar í kyn­ferðis­brota­málum hefur vakið tölu­verða at­hygli á undan­förnum misserum. Sam­kvæmt greiningu Frétta­blaðsins stað­festi rétturinn dóma héraðs­dóms í nauðgunarmálum um bæði sak­fellingu og refsingu í að­eins 24 prósentum til­vika á ný­liðnu ári.

Ef frá eru talin þau mál sem varða brot gegn börnum kvað Lands­réttur upp sau­tján dóma í nauðgunar­málum á síðasta ári. Í fjórum þeirra stað­festi rétturinn niður­stöðu héraðs­dóms um bæði sak­fellingu á­kærða og á­kvörðun um refsingu. Í sjö til­vikum var sak­felling héraðs­dóms stað­fest í Lands­rétti en refsing milduð, oftast með vísan til tafa á máls­með­ferð. Í sex til­vikum var sak­fellingar­dómi héraðs­dóms snúið við í Lands­rétti og á­kærði sýknaður með vísan til sönnunar­skorts.

Ólíkt sönnunarmat og orð gegn orði

Atvik þeirra mála sem dæmd voru í Landsrétti á nýliðnu ári eru með ýmsum hætti. Yfirleitt er deilt um hvort um raunverulega nauðung hafi verið að ræða eða hvort samræði hafi verið með samþykki beggja. Of langt mál er að rekja alla dómana en hér eru reifaðir stuttlega þrír dómar þar sem sýknað var í Landsrétti eftir sakfellingu í héraði.

Engin mæling á áfengi í blóði brotaþola

Karlmaður var dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraði árið 2018 fyrir að nauðga konu á menntaskólaaldri, en þau höfðu hist á skemmtistað í Reykjavík og hann boðist til að keyra hana heim. Samkvæmt dómi héraðsdóms gat konan ekki komið vörnum við sökum ölvunar og var ákærði sakfelldur fyrir að hafa nýtt sér ástand hennar og komið vilja sínum fram. Ákærði hélt því hins vegar fram að konan hefði verið vel áttuð og þau hefðu haft samræði með fullum vilja hennar.

Landsréttur taldi hins vegar ósannað að hún hefði verið ófær um að sporna við gjörðum hans, en fyrir lá að engin mæling hefði verið gerð á magni áfengis í blóði og þvagi konunnar. Var maðurinn því sýknaður af ákærunni.

Ekki sannað að ákærði hafi ætlað að nauðga

Karlmaður var dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraði fyrir að nauðga konu á baðherbergi í íbúð þar sem þau voru bæði gestkomandi, í janúar 2018. Konan fór með sjúkrabíl á bráðamóttöku strax eftir hina meintu nauðgun. Í framburði kvensjúkdómalæknis sem skoðaði brotaþola á bráðamóttöku kvaðst kvaðst hann muna sérstaklega eftir því hversu erfið skoðun í leggöng hafi verið vegna sársauka sem sé óvanalegt og þurft hafi að nota deyfigel til að ná sýnum vegna sprungusára sem hafi verið afar djúp. Aðspurður þá kvaðst læknirinn ekki telja það að nokkur gæti viljað halda áfram að hafa samfarir undir slíkum kringumstæðum.

Ákærði var sýknaður í Landsrétti þar sem ekki þótti sannað að hann hafi haft ásetning til að nauðga konunni. Við mat á því þyrfti að leggja til grundvallar hvernig atvik horfðu við honum á verknaðarstundu. Var ekki talið sannað svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði haft ásetning til þess að eiga samræði og önnur kynferðismök við A með ofbeldi og ólögmætri nauðung eins og honum var gefið að sök í ákæru.

Nauðgun eða harkalegt kynlíf?

Ungur maður var ákærður fyrir nauðgun á þjóðhátið haustið 2016. Í málinu bar ákærða og brotaþola saman um að kynmök hafi byrjað með samþykki beggja. Brotaþoli bar að svo hafi ákærði orðið ofbeldisfullur og hún beðið hann að hætta en hann ekki gert það. Í héraðsdómi er vísað til skýrslu læknis sem skoðaði brotaþola eftir atburðinn og mynda sem sýna áverka á hálsi, framan á lærum og rassi og skráma á maga. Reifaðir eru framburðir hjúkrunarfræðings sem tók á móti brotaþola í sjúkraskýli, sálfræðings sem hafði hana til meðferðar í kjölfarið. Vitnum bar saman um að brotaþoli væri trúverðugur í frásögn sinni. Einnig er vísað til framburðar ákærða sem hafi í upphafi borið að um hafi verið að ræða mjög venjulegar samfarir. Í síðari framburði hans, ekki síst fyrir dómi, hafi hann þó lýst samförum og kynlífi sem getur að mati dómsins ekki talist vera mjög venjulegt, enda hefur hann sjálfur lýst því sem óhefðbundnu kynlífi.

Í málinu er einnig deilt um skilaboð sem send voru úr síma brotaþola til ákærða sem skilja hafi mátt sem vilja hennar til að stunda óhefðbundið kynlíf. Í héraðsdómi er byggt á því að jafnvel þótt brotaþoli hafi sent skilaboðin til ákærða gætu þau ekki orðið til þess að ákærði hafi mátt ganga fram með þeim hætti lýst var í ákæru. „Um er að ræða unga stúlku sem ákærði þekkti aðeins lauslega áður og gat hann ekki gefið sér að þessi skilaboð veittu honum heimild til slíkrar framgöngu, án þess að frekara samtal færi fram um það. Er mat dómsins að við slíkt óhefðbundið kynlíf milli fólks, sem þar að auki þekkist aðeins lauslega fyrir atvikið, hvíli á þáttakendum enn ríkari skylda en ella til að afla ótvíræðs samþykkis fyrir öllum athöfnum sínum.“ Var ákærði sakfelldur í héraði og dæmdur í þriggja ára fangelsi.


„Er mat dómsins að við slíkt óhefðbundið kynlíf milli fólks, sem þar að auki þekkist aðeins lauslega fyrir atvikið, hvíli á þáttakendum enn ríkari skylda en ella til að afla ótvíræðs samþykkis fyrir öllum athöfnum sínum.“


Maðurinn var sýknaður í Landsrétti. Í forsendum dómsins kemur fram að ákærði hafi staðfastlega neitað því að hafa brotið gegn brotaþola með þeim hætti sem honum er gefið að sök í málinu. Ekkert hafi komið fram í málinu sem til þess sé fallið að draga úr trúverðugleika hans.

Brotaþoli hafi hins vegar ekki gefið skýringu á þeirri staðhæfingu að hún hafi ekki sent fyrrnefnd skilaboð. Lögum samkvæmt eigi ákærði að njóta þess vafa sem er í málinu um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans. Hann hafi staðfastlega haldið því fram að brotaþoli hafi aldrei gefið honum tilefni til að ætla að hún væri ekki samþykk athöfnum hans. Vafa um þetta verði að skýra ákærða í hag og framburður hans því lagður til grundvallar. „Samkvæmt þessu og þegar litið er til alls þess sem áður er rakið um samskipti ákærða og brotaþola í aðdraganda þess brots sem hann er sakaður um verður við það að miða að ákærði hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk athöfnum hans í umrætt sinn,“ segir í forsendum Landsréttar. Var ákærði sýknaður af brotinu.

Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður hefur sinnt réttargæslu fyrir brotaþola í nauðgunarmálum.

Ekki tekið tillit til fatlaðra brotaþola

Fréttablaðið ræddi við Kolbrúnu Garðarsdóttur, lögmann, um þessa dómaframkvæmd Landsréttar en hún hefur komið að þessum málaflokki sem réttargæslumaður brotaþola.

Að­spurð segist Kol­brún geta fallist að nokkru leyti á að reglur og við­mið um sönnun og sönnunar­mat í nauðgunar­málum séu enn á tölu­verðu reiki meðal dóm­stiganna þriggja.

„Þessi mál eru auð­vitað flókin að því leyti að sönnunar­staðan er oft erfið þar sem sönnunar­matið byggir á trú­verðug­leika fram­burða og al­gengt að lítið sé um fýsísk sönnunar­gögn,“ segir Kol­brún.

Hún bendir í þessu sam­bandi á veik­leika í kerfinu þegar fatlaðir ein­staklingar eiga í hlut.

„Í ný­legum dómi Lands­réttar var maður sýknaður á grund­velli þess að fram­burður brota­þola, sem er haldinn ó­dæmi­gerðri ein­hverfu, var metinn ó­trú­verðugur þar sem fram­burður hans var ekki í fullu sam­ræmi í skýrslum hjá lög­reglu og fyrir dómi,“ segir Kol­brún. Hún segir það galla á ís­lensku réttar­kerfi að ekki sé gætt betur að réttar­stöðu fatlaðs fólks í skýrslu­tökum vegna saka­mála.

Í al­þjóða­samningi um réttindi fatlaðs fólks, sem Ís­land hefur full­gilt, er kveðið á um skyldu ríkja til að laga máls­með­ferð í réttar­kerfinu að þörfum hins fatlaða ein­stak­lings. „Því miður hefur það ekki verið gert. Í saka­mála­lögum eru þó heimildir sem dómari getur beitt og tel ég að taka þurfi meira til­lit til þess en gert hefur verið,“ segir Kol­brún.


„Skýrslu­taka í dómi er þung­bær fyrir hvern sem er, en fyrir and­lega fatlaðan ein­stak­ling getur það verið við­komandi al­ger­lega of­viða.“


Lögin geri ráð fyrir á­kveðnum frá­vikum um skýrslu­tökur, bæði á rann­sóknar­stigi og fyrir dómi, sér­stak­lega ef um börn sé að ræða. Eðli­legt og rétt væri að túlka þau einnig í þágu fatlaðra eftir at­vikum enda aug­ljóst að fatlaðir geti verið full­orðnir í árum en börn í þroska. Ef sýnt er fram á að brota­þoli hafi vegna fötlunar sinnar þroska á við barn sé rétt að taka skýrslu af við­komandi með að­stoð sér­fræðings í mál­efnum fatlaðra, rétt eins og gert er í til­vikum barna.

„Skýrslu­taka í dómi er þung­bær fyrir hvern sem er, en fyrir and­lega fatlaðan ein­stak­ling getur það verið við­komandi al­ger­lega of­viða. Máls­með­ferð í réttar­kerfinu hefur verið að­löguð sér­stak­lega að þörfum barna, og ég tel að það sama verði að gilda um and­lega fatlaða ein­stak­linga einnig,“ segir Kol­brún.

Tafir á málsmeðferð bitni líka á brota­þola

Í sjö af sautján nauðgunarmálum sem dæmd voru upp í Landsrétti á nýliðnu ári var niðurstaða um sakfellingu staðfest en refsing dómfellda milduð vegna tafa á meðferð málsins sem ákærða varð ekki kennt um. Ýmist er um nokkurra mánaða styttingu fangelsisrefsingar að ræða og upp i styttingu um ár. Þannig refsing tveggja manna sem dæmdir höfðu verið fyrir að nauðga unglingsstúlku, stytt úr þremur árum í tvö. Þá eru dæmi um að dómur um óskilorðsbundið fangelsi í eitt til tvö ár hafi verið skilorðsbundinn að öllu leyti í Landsrétti vegna tafa á málsmeðferð.

Kol­brún gagn­rýnir að dóm­stólar virðist ein­göngu láta á­kærða njóta þess, með mildari refsingu, að tafir hafi orðið á með­ferð máls hjá á­kæru­valdi og dóm­stólum. „Ég tel að það eigi einnig að horfa til hags­muna brota­þola af því að máls­með­ferð tefst í höndum á­kæru­valdsins þar sem það hefur ekki síður á­hrif á brota­þola en sak­borning að bíða lengi eftir niður­stöðum,“ segir Kol­brún. Á­stæðan sé lík­lega sú að brota­þoli hafi réttar­stöðu vitnis í saka­máli og sé því í raun rétt­laus hvað varðar aðild að málinu fyrir utan bóta­kröfu.

„Ég tel að það þurfi að breyta lögunum á þann veg að njóti sak­borningur í­vilnunar í formi refsi­lækkunar vegna tafa á máls­með­ferð skuli brota­þola að sama skapi dæmdar hærri bætur, og þá á kostnað ríkisins vegna þess hluta sem snýr að töfum á máls­með­ferðinni.“

Skýrslu­tökur fá­tíðari í Landsrétti

Eins og Frétta­blaðið fjallaði um fyrr á árinu eru skýrslu­tökur af vitnum fá­tíðar í Lands­rétti, þrátt fyrir að milli­dóm­stig hafi verið sett upp til að upp­fylla skil­yrði stjórnar­skrárinnar og Mann­réttinda­sátt­mála Evrópu um milli­liða­lausa sönnunar­færslu á á­frýjunar­stigi.

Kol­brún segir á­kæru­valdið og verj­endur hafi mikið um það að segja hverjir koma fyrir dóminn og al­gengt að teknar séu skýrslur af á­kærða, brota­þola og ein­staka vitnum. Hún telur þessa réttar­bót á­gæt­lega nýtta í Lands­rétti.

Fréttablaðið ræddi einnig við Kol­brúnu Bene­dikts­dóttur vara­héraðs­sak­sóknara um dómaframkvæmdina í Landsrétti. Hún segist ekki treysta sér til að taka af­stöðu til þess hvort mis­brestur á milli­liða­lausri sönnunar­færslu hjá Lands­rétti eigi þátt í þessum tíðu sviptingum í niður­stöðum nauðgunar­mála á dóm­stigunum þremur.

Í þessum síðari hluta umfjöllunarinnar er rætt við Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hún bendir hins vegar á að nú sé rekið mál fyrir Hæsta­rétti þar sem reyni á þessa reglu. Málið varði þó ekki kyn­ferðis­brot heldur fíkni­efna­brot. Niður­staða þess kunni engu að síður að varpa ljósi á hvort um raun­veru­legan mis­brest sé að ræða í réttar­fram­kvæmd Lands­réttar.

Fræðileg úttekt á Landsrétti tímabær

Kolbrún telur tímabært að fræðimenn taki út dómaframkvæmd Landsréttar, bæði á þessu sviði og öðrum. „Með tilkomu Landsréttar var gerð grundvallarbreyting í íslensku réttarkerfi og eðlilegt þegar komin er reynsla á það að skoða hvaða áhrif þetta nýja dómstig hefur haft á þróun réttarins á þessu sviði og öðrum,” segir Kolbrún. Slík úttekt gæti hjálpað til við að svara því hvort Landsréttur hefur í raun vikið af braut Hæstaréttar á þessu sviði.


„Með tilkomu Landsréttar var gerð grundvallarbreyting í íslensku réttarkerfi og eðlilegt þegar komin er reynsla á það að skoða hvaða áhrif þetta nýja dómstig hefur haft á þróun réttarins á þessu sviði og öðrum.”


Landsréttur strangari en Hæstiréttur

Um áhrif þess að dráttur af orðið á rannsókn máls, segir Kolbrún það tilfinningu sína að Hæstiréttur hafi í sinni dómaframkvæmd frekar verið að skilorðsbinda refsingu að hluta hafi mikill dráttur orðið á máli eða ef dómfelldi er mjög ungur. Þá hafi rétturinn oft gert athugasemdir við langan málsmeðferðartíma án þess að það hafi haft áhrif á refsingu.

"Þá má einnig sjá dæmi þess að Hæstiréttur hafi engar athugasemdir gert við málsmeðferðartíma sem þó var sambærilegur við tímann í málum þar sem Landsréttur lækkar refsingar,” segir Kolbrún.

Hæstiréttur ómerkir vegna sönnunarmats

Hæsti­réttur tók þrjú kyn­ferðis­brota­mál til efnis­með­ferðar á síðasta ári. Í tveimur til­vikum ó­merkti Hæsti­réttur hinn á­frýjaða dóm með vísan til á­galla á sönnunar­mati Lands­réttar og vísaði málunum aftur heim til lög­legrar með­ferðar og nýrrar dóms­á­lagningar. Í báðum málum var sýknað og sak­fellt á víxl í héraði og Lands­rétti. Í þriðja málinu sem dæmt var í Hæsta­rétti á árinu var fangelsis­refsing fyrir kynferðisbrot þyngd veru­lega eða úr þremur í sex ár.

Athugasemdir