Bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitið, FDA, hefur heimilað þriðja örvunarskammtinn af Pfizer-BioNTech bóluefninu gegn Covid-19 fyrir börn á aldrinum fimm til ellefu ára.

Rannsókn sem gerð var í febrúar síðastliðnum leiddi í ljós að tveir skammtar af bóluefninu veita litla vörn gegn Omicron afbrigðinu. Frá þessu greinir fréttamiðillinn NBC News.

Í yfirlýsingu frá eftirlitinu kemur fram að tæplega þriðjungur barna á aldrinum fimm til ellefu ára hafi nú þegar fengið tvo skammta af bóluefni gegn Covid-19, en börn í þeim aldurshópi í Bandaríkjunum eru rúmlega 28 milljónir.

Þá hafa klínískar rannsóknir, sem birtar voru í apríl síðastliðnum, sýnt fram á að örvunarskammtur Pfizer bóluefnisins hækkaði mótefnamagn hjá þessum aldurshóp, bæði gegn upprunalegum stofni kórónaveirunnar sem og Omicron afbrigðinu.

Hins vegar sýndu niðurstöðurnar ekki fram á í hversu langan tíma hækkunin varði, en talið er að hækkunin geti varið í allt að fjóra mánuði hjá fullorðnum.

Dr. Paul Offit, sérfræðingur í bóluefnum við Barnaspítalann í Fíladelfíu, segir örvunarskammtinn geta hækkað mótefnamagnið nægilega mikið til að veita talsverða vörn gegn vægari sjúkdómum, að minnsta kosti í nokkra mánuði líkt og hjá fullorðnum.