Starfsmaður á háskólasjúkrahúsinu í Árósum hefur greinst með COVID-19 sjúkdóminn. Talið er að maðurinn hafi smitast af kórónaveirunni SARS-CoV-2 þegar hann var á ráðstefnu í München. Þetta er þriðji einstaklingurinn sem greinist með kórónaveirusmit í Danmörku. Allir smituðust erlendis. Greint er frá þessu ádanska ríkismiðlinum DR.

Maðurinn starfar á húð- og kynsjúkdómadeild sjúkrahússins. Um 30 manns, sem maðurinn meðhöndlaði og hitti í starfi sínu, eru nú í sóttkví og er verið að greina sýni úr þeim.

Danskur fréttastjóri var fyrstur til að greinast með kórónaveirusmit þann 27. janúar og var einn greindur í gær og einn í dag.

Fyrsta staðfesta tilfellið af kórónaveirunni greindist á Íslandi í gær. Um er að ræða íslenskan karlmann á fimmtugsaldri sem hafði verið í skíðaferð á Norður-Ítalíu. Hann var í gær færður í einangrun á Landspítala. Maðurinn er ekki alvarlega veikur en sýnir dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms (hósti, hiti og beinverkir).

Ríkislögreglustjóri lýst yfir hættustigi almannavarna í kjölfarið í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru.

Yfir­völd vinna nú að því að rekja ferðir ís­lenska karl­mannsins.

„Við erum búin að greina þennan sjúk­dóm og nú þurfum við að finna þá ein­stak­linga sem hugsan­lega hafa smitast,“ sagði Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra, em­bætti land­læknis og Land­spítala í gær.

Rauði krossinn segir eðlilegt að fólk finni til kvíða eftir að staðfest smit kom upp hér á landi. Fólk er hvatt til að halda ró sinni en leita stuðnings ef áhyggjur eru miklar.