Stéphane Leyenberger, framkvæmdastjóri Samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu (Greco), segir að þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi aðeins uppfyllt sex af átján tillögum úr úttekt samtakanna frá 2018 sé staðan ágæt á Íslandi.

Úttektin sem var samþykkt í mars 2018 náði annars vegar til æðstu handhafa framkvæmdavalds og hins vegar til löggæsluyfirvalda. Í gær kom út önnur eftir­fylgni­skýrsla Greco um Ísland og samkvæmt henni eru viðbrögð Íslands enn ófullnægjandi. Leyenberger er þó nokkuð bjartsýnn á að þriðja skýrsla Íslands, sem á að skila fyrir lok næsta árs, verði sú síðasta.

„Við tókum eftir því að það eru áhugaverðar og jákvæðar breytingar sem Ísland stefnir að en hefur ekki að fullu innleitt,“ segir Leyenberger og að vegna þess sé niðurstaða samtakanna ekki mjög jákvæð.

„En ef þú lest athugasemdir samtakanna við nánast öll tilmælin má sjá að Ísland er á réttri leið og fær hvatningu frá samtökunum um að klára málið.

Ísland mun skila þriðju skýrslu sinni fyrir lok næsta árs og ég get auðvitað ekki fullyrt það en ég er nokkuð öruggur að segja að þriðja skýrsla Íslands verður sú seinasta,“ segir Leyenberger en það þýðir að þá muni Ísland verða búið að innleiða öll tilmæli Greco að fullu fyrir lok árs 2024.

Tillögurnar beinast meðal annars að Landhelgisgæslunni
Fréttablaðið/Anton Brink