Klaudia Katarzyna lenti í því ó­happi að detta á leið sinni frá eld­gosinu síðasta laugar­dag með þeim af­leiðingum að hún þrí­brotnaði. Færsla Klaudiu í Face­book-hópnum Brask og brall.is hefur vakið mikla at­hygli en þar vildi hún þakka öllum þeim að­stoðuðu hana eftir fallið en fjöldi ókunnugra stöðvaði til að aðstoða hana. Þá vill Klaudia sérstaklega þakka einni konu sem fyldi henni alla leið á Landspítalann.

„Ég hef átt betri daga,“ segir Klaudia í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það var ekkert mál að labba og við vorum í um tvo tíma hjá gosinu bara að njóta þess að vera þar og taka myndir,“ segir Klaudia.

Hún segir að hún hafi dottið eigin­lega um leið og hún byrjaði að labba aftur til baka.

„Ég er þrí­brotin og er að fara vonandi í að­gerð á mið­viku­daginn.“

Klaudia segir að hún hafi brotnað áður.
Mynd/Aðsend

Kærastinn hélt hún væri að grínast

Hún segir að hún muni ekki alveg eftir því hvað gerðist eftir að hún brotnaði því á­fallið hafi verið tölu­vert en hún hefur brotnað áður og hafði því upp­lifað á­líka sárs­auka áður.

„Kærastinn minn og vin­kona mín héldu að ég væri að djóka,“ segir Klaudia hlæjandi.

Hún segir að hún hafi ekki legið lengi þegar fólk byrjaði að koma að henni og að­stoða. Vindurinn hafi byrjað að blása og hún gat ekkert hreyft sig.

„Það voru svo margir sem komu til okkar og byrjuðu bara að klæða sig úr fötum og breiða þau yfir mig. Stór hópur af Ís­lendingum. Það var hjúkrunar­fræðingur og ein­hver annar sem ég man ekki,“ segir Klaudia.

Hún segir að kærastinn hennar hafi verið í á­falli og það hafi verið kona á vett­vangi sem steig inn í að­stæðurnar og tók al­ger­lega stjórnina.

„Hún passaði að ég andaði vel og þegar það var verið að setja spelkuna, sem var svo vont, þá sagði hún að ég mætti kreista eins fast og ég gæti. Þau voru ekkert í vinnunni, þau voru bara að labba,“ segir Klaudia sem vissi ekki hver konan var sem að­stoðaði hana en langaði af­skap­lega mikið að þakka henni að­stoðina og birti þess vegna færsluna á Face­book.

Hún segir að fólk hafi myndað skjól­vegg í kringum hana en telur að hún hafi legið þarna í um hálf­tíma þar til björgunar­sveitar­með­limir komu. En þá var búið að lána henni úlpu, lopa­peysu og vind­buxur svo henni yrði örugg­lega ekki kalt.

„Þetta var svo vel gert. Ég er enn í sjokki,“ segir Klaudia.

Hún segir að hún vilji fyrst og fremst þakka öllum sem að­stoðuðu hana þegar hún datt.

„Þetta var magnað og alveg ó­trú­legt. Ég hef aldrei séð svona marga sem stoppuðu og spurðu,“ segir Klaudia himin­lifandi með við­brögðin sem fólk sýndi.

„Það voru allir til í að hjálpa,“ segir Klaudia.

Klaudia með kærastanum hjá eldgosinu.
Mynd/Aðsend