Þau sem hafa fengið örvunarskammt bóluefnis gegn Covid-19 eru undanþegin hefðbundinni sóttkví. Reglugerðarbreytingin tók gildi í gær og getur haft áhrif á lengd sóttkvíar hjá einstaklingum sem voru skipaðir í hana fyrir gildistöku.

Í staðinn gilda sérreglur í fimm daga um viðkomandi einstaklinga sem gerir þeim kleift að stunda vinnu og mæta í skóla. Allir sem fara í sóttkví geta stytt hana með neikvæðri niðurstöðu PCR prófi á fimmta degi.

Reglurnar gilda um:

  • einstaklinga sem eru þríbólusettir og fengu síðustu sprautuna meira en 14 dögum áður en viðkomandi er útsettur fyrir smiti
  • einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru jafnframt tvíbólusettir, að því gefnu að þeir hafi fengið síðari sprautuna meira en 14 dögum áður en þeir voru útsettir. 

Breyttar reglur fela í sér að hlutaðeigandi er:

  • heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur,
  • óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan,
  • skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð,
  • óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar,
  • skylt að forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra undirritaði reglugerðina en hún byggir á tilmælum frá sóttvarnalækni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í pistli sem hann birti í dag að tillagan sem heilbrigðisráðherra samþykkti sé byggð á nýlegri rannsókn í New England Journal of Medicine sem sýni að tvíbólusettir séu bæði ólíklegri til að taka smit og smita aðra.

Í lok desember 2021 tóku gildi reglur um styttingu einangrunar niður í sjö daga. Var þetta gert vegna breyttra eiginleika Ómíkron afbrigðisins og breytts áhættumats samkvæmt Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna.