Þingmenn Pírata voru áberandi í ræðustól í nótt þegar önnur umræða fjárlaga fór fram til klukkan fimm. Þeir voru ekki ánægðir með forseta Alþingis.

Fundi var slitið rétt fyrir fimm í nótt. Umræðan um fjárlög heldur áfram í dag og eru þar þingmenn Pírata fyrstir á mælendaskrá.

„Skilvirknin hérna er stórkostlega léleg,“ sagði Björn Leví meðal annars um störf Alþingis. „Mér líður eins og við séum enn þá samfélagi þar sem við sendum bréf en ekki tölvupósta eins og það sé ekki hægt að biðja um upplýsingar og fá svar eftir einn dag því það er búist við því að bréfið taki viku í pósti að fara landshornanna á milli.“

Hann sagðist sjá mikla möguleika til að bæta skilvirkni, sérstaklega í fjárlagavinnunni. Nauðsynlegt væri að geta deilt upplýsingum.

Áhugi Pírata mikill

Lenya Rún Taha Karim, þingmaður Pírata, sagðist ekki vita hvort henni þætti í lagi að umræðan stæði langt fram til morguns. Að forseti Alþingis virti þingmenn Pírata ekki nægilega mikið til að fresta umræðu fram til morguns.

„Það sést langar leiðir að þingmenn Pírata hafa mikinn áhuga á þessu,“ sagði Lenya Rún jafnframt. „Kjarni málsins er sá að við viljum að það sé tekið þátt í þessari umræðu.“

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, benti einnig á þá staðreynd að klukkan væri hálf fimm að nóttu til og ítrekaði hún beiðni um að umræðunni yrði fram haldið í dag. „Það er sanngjörn og eðlileg krafa fyrir jafn stórt mál og fjárlögin eru.“

Fjárlögin væru stærsta málið sem Alþingi afgreiðir á hverju ári. „Krafan er ekki eðlileg,“ sagði Arndís Anna en hún mismælti sig sökum þreytu og uppskar hlátur fárra viðstaddra. Hún var þó fljót að leiðrétta sig: „Krafan er eðlileg,“ sagði Arndís Anna og hló.

Störukeppni í boði forseta

Rétt eftir klukkan hálf fimm í nótt sagði Björn Leví að forseta Alþingis þætti gaman að vera í störukeppni og að hann ætlaði að halda þingfundi áfram langt fram eftir nóttu.

„Ég tek áskoruninni sko því þetta er algjörlega í boði forseta Alþingis að haga sér svona,“ sagði Björn Leví jafnframt og hélt áfram: „Ef hann vildi í alvörunni að umræðurnar hér væru með skipulögðum hætti, ekki á nóttunni, þá þarf hann ekki að gera neitt nema tala við fólk.“