Þrettán voru um borð í vélarvana skipi vestur af Reykjanesi í morgun. Áhöfn varðskipsins Þórs og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út. Áhöfn skipsins tókst að koma vélum skipsins í gagn og hefur áhöfn þess náð að snúa skipinu til norðurs á nýjan leik og siglir það því fyrir eigin vélarafli. Landhelgisgæslan hefur létt á viðbúnaði sínum en dráttarbáturinn Magni kemur til með að fylgja flutningaskipinu áleiðis til hafnar í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni i morgun kom fram að þyrlusveit þeirra væri í viðbragðsstöðu og að nálæg skip hafi verið beðin um að halda á staðinn til aðstoðar sem og dráttarbáturinn Magni úr Reykjavík. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um að skipið væri vélarvana á fimmta tímanum í morgun en það rekur í átt til suðurs.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að áhöfn náði að koma vélum skipsins í gang. Uppfært 9.1.2023 klukkan 8:56.