Árlegur launakostnaður vegna upplýsingafulltrúa í ráðuneytum hefur farið úr 6,6 milljónum upp í rúmar 13 milljónir frá 2010 til ársins 2019. Þetta kemur fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Miðflokksins, um upplýsingafulltrúa og samskiptastjóra.

Í svarinu kemur fram að á síðastliðnum árum hafi verið starfandi upplýsingafulltrúi í ráðuneytinu. Meðfylgjandi tafla sýnir árlegan launkostnað á tímabilinu 2010 til 2019 með launatengdum gjöldum. Ýmis starfstengdur kostnaður í starfi upplýsingafulltrúa sem og annarra starfsmanna ráðuneytisins er að mestu leyti ekki aðgreindur í bókhaldi ráðuneytisins niður í einstaka starfsmenn.

Starf upplýsingafulltrúa ráðuneytisins felst meðal annars í umsjón með öllu kynningarstarfi, umsjón með samskiptum við fjölmiðla, vefstjórn á heimasíðu og samfélagsmiðlum, tengiliður við frjáls félagasamtök, umsjón með viðburðum og einstökum styrktarverkefnum ásamt þátttöku í alþjóðlegu samstarfi norrænna upplýsingafulltrúa að sögn ráðherrans.

Anna Sigríður Einarsdóttir er upplýsingafulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis.