Harmleikur átti sér stað í brúðkaupi í Indlandi í gær þegar þrettán konur og stúlkur létu lífið eftir að hafa fallið ofan í brunn. Þær sátu allar á járnplötu yfir brunninum sem gaf undan með þeim hörmulegu afleiðingum.
Atburðurinn átti sér stað í norðurhluta Indlands, í Uttar Pradesh fylki. Brunnurinn og platan yfir honum voru orðin gömul. Þegar platan gaf undan féllu konurnar og stúlkurnar fimmtán metra niður brunninn og urðu undir fallandi braki og lausagrjóti.
Þrettán létust við slysið og tvö slösuðust alvarlega. Öll voru hífð upp úr brunninum og flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar þar sem þrettán voru úrskurðuð látin.
Samkvæmt frétt The Guardian eru indversk brúðkaup gjarnan stórar hátíðir með fjölda gesta og nokkurra daga veisluhöld. Konurnar og stúlkurnar sem létust höfðu safnast saman til að taka þátt í veisluhöldunum.