Að minnsta kosti þrettán eru látnir og um það bil 250 veikir eftir gassprengingu sem átti sér stað í hafnarborginni Aqaba í Jórdan í gær.

Samkvæmt stjórnvöldum þar í landi átt atvikið sér stað í gær við höfnina þegar að tankur sem innihélt 25 tonn af klór sem átti féll úr krana í skip.

Myndband af atvikinu er nú í dreifingu, en á því sést þegar gámur fellur á skipið og í kjölfarið sést skipið og umhverfi þess umlykjast gulum reyk.

Íbúum borgarinnar hefur verið sagt að loka gluggum að heimilum sínum og fara ekki úr húsum. Þó hefur því verið haldið fram að útbreiðsla klórsins sé lítil og að ólíklegt þyki að hún muni hafa áhrif á almenning að svo stöddu.

Líkt og flestir vita er klór gjarnan notað til að drepa bakteríur og má til að mynda finna það í fjölmörgum sundlaugum á Íslandi. Efnið getur þó verið stórhættulegt. Þegar það er í gasformi, líkt og í umræddu tilfelli, má það ekki komast í snertingu við húð eða augu, en það veldur gríðarlegum sársauka og hefur til að mynda verið notað í hernaði.