Matvælastofnun sendi tólf hross á Vesturlandi í sláturhús og aflífaði eitt folald á staðnum þegar þau voru við eftirlit á bænum í gær. Um er að ræða sömu hross sem hefur verið fjallað um ítarlega í fjölmiðlum vegna mikilllar vanrækslu eigenda hrossanna. Það staðfestir Steinunn Árnadóttir en hún hefur vakið athygli á málinu.
„Þessi hross voru verulega aflögð (holdastig < 2,5) auk þess sem nokkur þeirra voru gengin úr hárum. Að teknu tilliti til árstíma var tekin sú ákvörðun að senda tólf hross samdægurs í sláturhús en eitt var aflífað á staðnum,“ segir í tilkynningu MAST.
Einhver hrossanna voru metin í ásættanlegum holdum og skilað til umráðaaðila en tíu eru í viðkvæmu ástandi og eiga að njóta sérstakrar umhirðu. Málið er því enn til meðferðar hjá stofnuninni þar sem kröfum um úrbætur verður fylgt eftir.
Íbúar reiðir yfir viðbragðsleysi MAST
Steinunn Árnadóttir segir í samtali við Fréttablaðið að fólk sé reitt yfir þessari niðurstöðu. Þetta hafi endað svona því MAST hafi beðið of lengi með að bregðast við þrátt fyrir ítrekaðar tilkynningar nágranna og annarra í sveitinni. Hún var sjálf viðstödd þegar hrossin voru fjarlægð og aflífuð.
„Við horfðum á þetta. Það var ekki hægt að gera neitt annað úr þessu fyrst það var beðið svo lengi. Það var vitað mál að þetta færi á þennan veg út að aðgerðarleysi.“
Það er alvarlegt mál, er það ekki?
„Jú, og það er það sem fólk er svo reitt yfir að það hafi ekki verið brugðist við. Það hafa svo margir látið vita.“
Hún segir að þau muni halda áfram að fylgjast með því að á bænum séu enn dýr sem hún myndi segja vanrækt og eru undir eftirliti sömu stofnunar.
„Þetta er bara hluti af vandamálinu.“
Fóðrun ekki sinnt
Í tilkynningu MAST kemur fram að við eftirlit þeirra á hrossahópi á Vesturlandi hafi komið í ljós að kröfum um fóðrun hrossanna samhliða beit hafði ekki verið sinnt sem skildi.
MAST sendi umráðamanni hrossanna tilkynningu um vörslusviptingu á mánudag sem kom svo til framkvæmdar í gær, með aðstoð lögreglu. Eftir það voru hrossin skoðuð og var við það ástand þrettán hrossa metið svo alvarlegt að aðgerðir þyldu ekki bið.