Áströlsk yfirvöld hafa staðfest útdauða þrettán landlægra dýrategunda, tólf spendýrategunda og einnar skriðdýrategundar, sem er sú fyrsta frá landnámi til að deyja út.
Fregnirnar koma vísindamönnum ekki óvart enda er talið að flestar þessara tegunda hafi dáið út á tímabilinu 1850-1950. Listinn inniheldur þó tvær tegundir sem dóu út á síðastliðnum áratug á Jólaey.

Höfuðstaður útdauðra spendýrategunda
Nýlegasti útdauðinn átti sér stað árið 2014 þegar síðasti einstaklingur Jólaeyjar-skógarskinkunnar dó út en tegundin er fyrsta ástralska skriðdýrategundin sem dáið hefur út frá landnámi. Þar áður hafði leðurblökutegundin Jólaeyjar-pipistrelle dáið út, en síðasti einstaklingur þeirrar tegundar dó árið 2009. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN höfðu áður staðfest útdauða beggja tegunda.
Ástralía er nú þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera það land heimsins þar sem flestar spendýrategundir hafa dáið út, en alls hafa 34 tegundir spendýra dáið út þar í landi eða 10% þeirra 320 tegunda sem fyrirfundust í Ástralíu árið 1788.
„Ekkert annað land hefur gengið í gegnum nærri því jafn mikinn útdauða spendýrategunda á síðustu 200 árum,“ segir John Woinarski, prófessor í líffræði og dýravernd við Charles Darwin háskólann. Samkvæmt honum eru veiðar af höndum villikatta líklegasta ástæða útdauðans en þó eru líkur á því að refir, eyðilegging vistkerfa og eldar hafi einnig átt þátt í því að tegundirnar dóu út.
