Í nýju frum­varpi inn­viða­ráð­herra um breytingar á um­ferðar­lögum er mælt fyrir um að heimilt sé að aka smá­farar­tæki á vegi þegar leyfi­legur há­marks­hraði er ekki meiri en 30 km á klukku­stund en veg­haldara sé þó heimilt að leggja bann við um­ferð þeirra á ein­stökum vegum eða vegar­köflum.

Þá er einnig í frum­varpinu lagt til að börnum yngri en 13 ára verði bannað að aka smá­farar­tækjum og kveðið er á um hjálma­skyldu barna yngri en 16 ára við akstur slíkra farar­tækja.

Þá eru þar einnig settar reglur um að eiga við raf­magns­reið­hjól, smá­farar­tæki eða létt bif­hjól þannig að há­marks­hraði þeirra verði um­fram 25 kíló­metrar á klukku­stund, það sama á við létt bif­hjól í flokki II að undan­skildu því að há­marks­hraði þeirra má vera 45 km á klst.

Sigurður Ingi Jóhanns­son, inn­viða­ráð­herra, sagði frá á­formunum á Um­ferðar­þingi 2022 í gær­morgun en eitt megin­við­fangs­efni þingsins var öryggi ó­varinna veg­far­enda í um­ferðinni:

„Með því að ferðast stuttar vega­lengdir gangandi, hjólandi eða með strætó drögum við úr losun gróður­húsa­loft­tegunda, stuðlum að betri loft­gæðum í þétt­býli og vinnum að bættri lýð­heilsu. Það stafa þó ýmsar hættur að ó­vörðum veg­far­endum. Því er nauð­syn­legt að gera breytingar á reglu­verki um­ferðar til að auka öryggi þeirra sem nýta þennan farar­máta, m.a. á smá­farar­tækjum,“ sagði ráð­herra á þinginu.

17 prósent slasaðra á rafhlaupahjóli

Drög að frum­varpinu hafa verið birt í sam­ráðs­gátt en í til­kynningu ráðu­neytis segir að þar sé að finna ýmis ný á­kvæði sem hafa það mark­mið að auka öryggi veg­far­enda á smá­farar­tækjum í um­ferðinni en nýta jafn­framt kosti þeirra. Breytingarnar byggja á til­lögum starfs­hóps um smá­farar­tæki sem skilaði skýrslu í júní á þessu ári.

Í kynningu um frum­varpið í sam­ráðs­gátt segir að um­ferð smá­farar­tækja, sér­stak­lega raf­hlaupa­hjóla, hafi aukist og slysum hafi fjölgað mikið á síðustu árum. Breytingar á um­ferðar­venjum hafa leitt til þess að 17 prósent þeirra sem slösuðust al­var­lega í um­ferðinni á síðast­liðnu ári voru á raf­hlaupa­hjólum, en um­ferð þeirra er þó innan við eitt prósent af allri um­ferð.

42 prósent al­var­lega slasaðra í um­ferðinni á síðasta ári voru gangandi, hjólandi eða á raf­hlaupa­hjóli og stór hluti fyrr­greindra slysa átti sér stað seint á föstu­dögum eða laugar­dögum.

Þá kemur einnig fram að í hópi ó­varinna veg­far­enda sem slösuðust al­var­lega í um­ferðinni á síðast­liðnu ári voru ung­menni á­berandi og komu mörg ung börn, allt niður í átta ára gömul á neyðar­mót­töku Lands­spítalans vegna slysa á raf­hlaupa­hjólum.

Fram­leið­endur mæla al­mennt fyrir um 14 til 16 ára aldurs­tak­mark til notkunar raf­hlaupa­hjóla sinna en ung börn má sjá á raf­hlaupa­hjólum ætluðum eldri not­endum.

Skoða má frum­varpið hér.