Skotfélag Reykjavíkur, elsta íþróttafélag borgarinnar, hefur fengið útgefið nýtt starfsleyfi til ársins 2023 á skotvelli sínum í Álfsnesi. Meirihlutinn í borginni segir í ljósi þeirra alvarlegu og ítarlegu athugasemda sem bárust við auglýsingu starfsleyfisins að eftir tvö ár verði ekki gefið út nýtt starfsleyfi fyrir starfsemina. „Núverandi staðsetning er ekki ásættanleg, fyrir hvorki íbúa né náttúru. Starfseminni þarf að finna nýjan stað þar sem hún getur farið fram í sátt við sitt umhverfi,“ segir í bókun meirihlutans í umhverfis- og heilbrigðisráði.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins bókuðu að takmarkanirnar væru kaldar kveðjur til félagsins og framkoma borgarinnar gegn því væri henni ekki til sóma. „Nýtt starfsleyfi gerir starfsemi Skotfélagsins mjög erfitt fyrir með takmarkandi opnunartíma. Nær hefði verið að vinna lausnir í samráði við Skotfélag Reykjavíkur. Svona framkoma er borginni ekki til sóma gagnvart elsta íþróttafélagi Reykjavíkur og jafnframt elsta íþróttafélagi landsins.“

Alls bárust fimmtán athugasemdir, frá íbúum Kollafjarðar og Kjalarness, íbúasamtökum, íbúaráði, Skotfélaginu sjálfu og fuglaverndunarsamtökum. Flestar umsagnir íbúa eru á sömu leið um að ekki eigi að veita félaginu starfsleyfi. „Það er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur að hunsa sí og æ kvartanir íbúa á svæðinu,“ skrifar Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir. „Framlenging starfsleyfis til tveggja ára bendir ekki til mikils vilja eða áhuga til sáttar,“ segir Guðni Indriðason formaður Íbúasamtaka Kjalarness.

SAXoPicture-071D0250-247483292.jpg

Hreindýraskyttur munu þurfa að fylgjast vel með opnunartíma fyrir komandi skotpróf.

Skotfélagið sjálft segir að reiknað hafi verið með að svæðið yrði varanlegt og því sé búið að eyða hundruðum milljóna til að gera það sem glæsilegast. Verði það flutt gerir það þá kröfu að nýtt svæði verði fullbyggt þegar félagið verður flutt burt frá Álfsnesi.

Í umsögn félagsins segir að óánægja sé ekki almenn og víðtæk. „Þar sem þessi óánægja á að hafa veruleg áhrif á starfsemi félagsins, teljum við nauðsynlegt að skoða þessar kvartanir í hnotskurn og frá hverjum slíkar kvartanir hafa borist og þá hvert. Við höfum ekki fengið eitt einasta erindi vegna þess frá því að við opnuðum svæðið.“

Ljóst er að nýr opnunartími setji úr skorðum verkleg skotpróf vegna hreindýraprófa og skotvopnanámskeiða Ríkislögreglustjóra.

„Á Álfsnesi væri hægt að búa þannig um hnútana að friður skapist um svæðið. Til dæmis mætti hækka allar manir verulega og byggja jafnvel yfir riffilvöllinn að hluta svo öllum hávaðamörkum sé fylgt. Allt sem þarf er góður vilji og skilningur,“ segir í umsögn Skotfélagsins.