Aðeins verður leyft að selja flugelda þrjá daga á ári og nota stóra flugelda á afmörkuðum tímum samkvæmt drögum að reglugerð um skotelda sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Samkvæmt drögunum verður aðeins heimilt að nota stóra flugelda frá kl. 16:00 til kl. 2:00 á gamlársdag, og milli kl. 16 og 22 á nýársdag og á þrettándanum, 6. janúar. Þá verður heimilt að nota flugelda í 1. flokki, sem eru minni og hættulitlir, allt árið.

Sveitarfélög fá heimild til að leyfa sölu einn dag til viðbótar í byrjun janúar eða í vikunni eftir þrettándann með leyfi lögreglustjóra.

Markmiðið með þessum breytingum er að draga úr neikvæðum áhrifum flugelda á lýðheilsu og loftgæði, en hávær umræða hefur verið undanfarin ár um hvort banna eigi flugelda.