Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Fréttablaðið að eitt snjóflóðanna hafi fallið á eitt hús í efri byggð á Flateyri. Var þremur bjargað úr húsinu og þá grófst unglingsstúlka undir í flóðinu. Davíð segir að hún hafi verið grafin upp og hún sé heil á húfi.

„Hún var skelkuð og líka köld,“ segir Davíð í samtali við Fréttablaðið og bætir við að hjúkrunarfræðingur hafi gengið úr skugga um að hún væri ekki alvarlega slösuð.

Snjóflóðin sem féllu voru þrjú. Báta í höfninni á Flateyri tók út og eru þeir flestir ef ekki allir illa farnir eða ónýtir.

Davíð Már beinir þeim tilmælum til fólks að fara ekki nærri höfninni á Súgandafirði þar sem óttast sé að annað flóð geti fallið og svæðið því varasamt. Í Súgandafirði féll flóð úr fjöllunum á móti Suðureyri.

„Ekki er vitað hvort fjallið er búið að tæma sig,“ segir Davíð og ítrekar að fólk haldi sig frá höfninni, en hætta sé á að falli flóð geti önnur flóðbylgja myndast.

Davíð segir einnig að mikilvægt sé að fólk haldi sig innandyra á Flateyri. Ekki sé búið að opna fjöldahjálparstöð en verði það gert mun skilaboðum þess efnis verða komið á leiðis til íbúa í þorpinu.