Hættan á því að fá endurtekið Covid-smit er þrefalt meiri þegar hið nýja Omíkron á í hlut heldur en af fyrri afbrigðum. Þetta kemur fram í frétt á vef sænska ríkissjónvarpsins, svt.se.

Í frétt svt.se er vitnað til stöðunnar í Suður-Afríku þar sem Omíkron leikur nú lausum hala og dagleg Covid-19 smit hafa margfaldast á fáeinum vikum. Um miðjan nóvember voru smitin 300 talsins á hverjum degi en eru nú komin upp í 11.500 á dag. Og spár eru sagðar gera ráð fyrir enn meiri fjölgun smita.

„Við teljum ekki að fyrri smit gefi vörn gegn Omíkron,“ vitnar sænska sjónvarpið í Önnu von Gottberg, sem er prófessor í Suður-Afríku og lét þessi orð falla á rafrænni ráðstefnu.

Þrátt fyrir að vísindamenn eigi enn sem komið er margt ólært um Omíkron bendir sænska sjónvarpið á að menn hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að afbrigðið sé meira smitandi en þau fyrri og myndi nú fjórðu bylgju veirunnar.

Smitsjúkadómastofnun Suður-Afríku les það úr sínum athugunum að hættan á að þeir sem áður hafi fengið Covid smitist aftur sé þrefalt meiri með Omíkron og að jafnvel þeir sem séu fullbólusettir smitist af afbrigðinu. „En við teljum að bóluefnin verndi gegn alvarlegum veikindum,“ tekur Anne von Gottberg hins vegar fram.

Omíkron heldur áfram að breiðast hratt út. Frá því í gær hafa Finnland, Grikkland, Srí Lanka, Malasía og Singapúr bæst við þau rúmlega 30 lönd sem þegar hafa tilkynnt tilfelli Omíkron, þrátt fyrir að afbrigðið hafi aðeins verið uppgötvað fyrir rúmri viku.

Í Bandaríkjunum greindist fyrsta tilfellið í borginni San Francisco í Kaliforníufylki í gærmorgun. Sólarhring síðar höfðu níu tilfelli greinst í fjórum öðrum fylkjum, sem ekki liggja að Kaliforníu. Það er New York á austur­ströndinni, Minnesota í norðri, Colorado í Klettafjöllum og Hawaii í Kyrrahafi.

„Höfum það á hreinu að þetta er ekki ástæða til þess að fara á taugum. Við vissum að þetta afbrigði væri á leiðinni og við höfum tólin til þess að stöðva útbreiðsluna. Látið bólusetja ykkur, fáið ykkur örvunarskammt. Berið grímu,“ tísti Kathy Hochul, fylkisstjóri New York.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur þegar brugðist við Omíkron-afbrigðinu með því að herða eftirlit á landamærunum. Frá og með næstu viku þurfa bæði útlendingar og Bandaríkjamenn, bólusettir sem óbólusettir, að fara í sýnatöku daginn fyrir flug eða sýna vottorð um nýlega sýkingu.

Utan Suður-Afríku virðist Omíkron hafa náð mestri fótfestu í Vestur-Evrópu og hefur nú fundist þar í öllum ríkjum með milljón eða fleiri íbúa. Í Osló smituðust 60 af 125 gestum í jólaboði af Covid-19 og líklega er um Omíkron-smit að ræða, því eitt hefur verið raðgreint sem slíkt.

Unnið er að smitrakningu en sérstakt áhyggjuefni er að starfsmennirnir búa ekki allir í Osló heldur nágrannasveitarfélögum. „Við búumst við fleiri tilfellum og við gerum það eina sem við getum gert, að rekja og staðfesta,“ sagði Caroline Bremer, upplýsingafulltrúi heilbrigðisstofnunar Oslóborgar, við bandarísku fréttastofuna CNN.