Hættan á því að fá endurtekið Covid-smit er þrefalt hærri þegar hið nýja Omíkron á í hlut heldur en af fyrri afbrigðum. Þetta kemur fram í frétt á vef sænska ríkissjónvarpsins.

Í frétt svt.se er vitnað til stöðunnar í Suður-Afríku þar sem Omíkron leikur nú lausum hala og dagleg kórónaveirusmit hafa margfaldast á fáeinum vikum. Um miðjan nóvember voru smitin 300 talsins á hverjum degi en eru nú komin upp í 11.500 á dag. Og spár eru sagðar gera ráð fyrir enn meiri fjölgun smita.

„Við teljum ekki að fyrri smit gefi vörn gegn Omíkron,“ vitnar sænska sjónvarpið til Önnu von Gottberg, sem er prófessor í Suður-Afríku og lét þessi orð falla á rafrænni ráðstefnu.

Þrátt fyrir að vísindamenn eigi enn sem komið er margt ólært um Omíkron bendir sænska sjónvarpið á að menn hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að afbrigðið sé meira smitandi en þau fyrri og myndi nú fjórðu bylgju veirunnar.

Segir í frétt svt.se að Smitsjúkadómastofnun Suður-Afríku lesi það úr sínum athugunum að hættan á að þeir sem áður hafi fengið Covid smitist aftur sé þrefalt meiri með Omíkron og að jafnvel þeir sem séu fullbólusettir smitist af afbrigðinu.

„En við teljum að bólefnin verndi gegn alvarlegum veikindum,“ tekur Anne von Gottberg hins vegar fram.