Eigandi Djúpakletts í Grundarfirði segir það borga sig fyrir hann að kaupa olíur beint frá Póllandi, heldur en frá stórum birgja hér á landi. Hann segir það 227% dýrara að panta og flytja frá Reykjavík en frá Bialystok í Póllandi.

„Ég er að reka þarna þrjú fyrirtæki en það skiptir ekki máli. Þetta beinist gegn landsbyggðinni eins og hún leggur sig,“ segir Þórður Magnússon, eigandi Djúpakletts ehf. í Grundarfirði.Þórður, sem rekur meðal annars Vélsmiðju Grundarfjarðar, fékk tölvupóst á dögunum frá Skeljungi þess efnis að frá og með 1. júlí næstkomandi muni fyrirtækið innheimta akstursgjald á allar vöruafhendingar út á land.

Í tölvupóstinum kom fram að gjaldið fyrir hverja sendingu væri 4.400 krónur án virðisaukaskatts og óháð magni eða upphæð reiknings.Þórður gagnrýnir þetta og segir það í raun hagstæðara fyrir sig að eiga viðskipti við birgja erlendis en hér á landi ef þetta er það sem koma skal.

Þórður vakti fyrst athygli á þessu á Facebook-síðu sinni þar sem hann tók dæmi um kostnað við að flytja 20 lítra af olíu frá Skeljungi annars vegar og Póllandi hins vegar. Frá Reykjavík myndi samanlagður kostnaður við flutninginn til Grundarfjarðar kosta hann 5.900 krónur. Ef hann myndi panta með skipi frá Póllandi þá væri kostnaðurinn tæpar 130 krónur á kíló, eða 2.600 krónur

„Það er sem sagt 227 prósent dýrara að panta og flytja frá Reykjavík en frá Bialystok í NA-Póllandi,“ segir hann og bætir við að þetta sé ekki í neinum takti við sölumennsku 21. aldarinnar. „Ef Jeff Bezos, sem er orðinn ríkasti maður heims í gegnum Amazon, myndi setja svona gjald á sína viðskiptavini, þá myndi hann skrúfa fyrir öll viðskipti. Þau yrðu núll sama dag.“

Þórður segir að ef hann myndi kaupa einn til tvo gáma myndu þessar 4.400 krónur ekki skipta neinu máli, en þegar um lítil fyrirtæki er að ræða úti á landi sem kaupa í minna magni, sé þessi upphæð fljót að telja. Kaupa þurfi fyrir 100 þúsund krónur eða meira til að akstursgjaldið fari ekki yfir 5 prósent af heildarupphæðinni. Segir Þórður að hér eftir muni hann kaupa nákvæmlega sömu olíur frá Póllandi til að spara flutningskostnað.

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og aðstoðarforstjóri Skeljungs, segir að afgreiðslugjald vegna afhendingar á vörum hafi verið innheimt til fjölda ára, bæði til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Nýverið hafi útfærslunni verið breytt þannig að hófstillt gjald bætist við allar afhendingar til að koma til móts við þann kostnað sem af þeim hlýst.

Segir Ólafur að gjaldið leggist á afhendingar óháð staðsetningu á landinu. „Meðal viðskiptavina okkar ríkir almennt góður skilningur á því að það er kostnaður við að dreifa vörum og veita góða þjónustu. Við höfum því orðið mjög lítið varir við neikvæð viðbrögð vegna þessara breytinga enn sem komið er,“ segir hann.