Þrándur Þórarinsson listmálari er þekktur fyrir að blanda beittri samfélagsádeilu saman við olíuliti sína og hefur nú fundið reiði sinni farveg á striga með verki sem sýnir fráfarandi ríkislögreglustjóra, ráðherra dómsmála og forstjóra Útlendingastofnunnar í nasistabúningum böðla Þriðja ríkisins.

„Mér ofbauð þegar Útlendingastofnun sendi óléttu konuna úr landi, sem var við það komin að fæða, og tveggja ára dóttur hennar úr landi og þetta var aðeins það síðasta langri röð skelfilegra ódæðisverka,“ segir Þrándur í samtali við Fréttablaðið og segist aðspurður vissulega hafa málað myndina sjóðandi reiður.

Myndmál fyrirlitningarinnar er svo skýrt hjá Þrándi að ekki þarf listfræðinga til þess að rýna eftir boðskapnum.
Mynd/Þrándur

„Það er skondið að gera fyrirlitningu og heift drifkrafti sköpunar en það virkar þó ekkert síður en hvað annað,“ heldur Þrándur áfram og segist aðspurður kæra sig kollóttann ef tískurökvillan reductio ad Hitlerum verði notuð gegn honum og málverkið þá væntanlega til marks um að hann sé rökþrota.

„Hér er reductio ad Hitlerum á ferð og það er ef til vill gömul og ofnotuð tuggga en mér þótti ekki annað við hæfi þar sem stofnuninni var á sínum tíma komið á laggirnar af Agnari Kofoed-Hansen, sem hafði sótt sumarnámskeið hjá SS-sveitum þýskra nasista, og Hermanni Jónassyni, þáverndi dómsmálaráðherra, sem var alkunnur áhugamaður um hreinleika þjóðar sinnar,“ segir Þrándur ákveðinn.

„Gjörðir þeirra væru ekkert annað en nasismi í verki í dag og ætli það sé ekki bara tímaspursmál hvenær börn fólks á flótta verða skilin frá foreldrum sínum og höfð í búri eins og tíðkast vestra,“ segir Þrándur og telur hiklaust upp þau þekktu andlit sem standa í fullum skrúða á striganum undir nafni Útlendingastofnunnar í gotnesku letri og hauskúpumerki dauðasveita SS.

Fráfarandi ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðherra annars vegar og hins vegar yfirstjórnendur Útlendingarstofnunnar með augum listmálarans.
Mynd/Þrándur

„Fyrir miðju standa Haraldur Johannessen, Áslaug Arna og Kristín Völundardóttir,“ segir Þrándur um fráfarandi ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunnar. „Vinstra megin við Halla er svo Agnar þessi Kofoed-Hansen og til hægri við Kristínu er Þorsteinn Gunnarsson sem leysir hana af um þessar mundir.“

Þrándur segir óhætt að segja að það sjóði á honum og heldur áfram. „Við þetta má bæta að Íslendingar eiga þátt í því að uppræta fólk í þriðja heiminum. Meðal annars með fiskveiðum við Afríkustrendur en einnig með því að taka þátt í stríði gegn Líbíu, Írak og fleiri þjóðum.“

Þrándur hefur ítrekað vakið mikla hrifningu í bland við harkaleg viðbrögð með verkum sínum og er í því sambandi skemmst að minnast listrænni afgreiðslu hans á Klaustursmálinu, harðri ádeilu á framferði Ísraela í Palestínu að ógleymdri mynd af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að troða sér í nábrækur.

Þrándi var á sínum tíma bannað að hafa þá mynd til sýnis í Hannesarholti og sagði þá meðal annars þetta um ákvörðun staðarhaldarans í samtali við Fréttablaðið: „Henni fannst þetta vera andstyggilegt verk sem ekki hætti heima þarna. Ég var ekkert sérlega hrifinn af því og finnst þetta vera fullmikil ritskoðun, að vera að fetta fingur út í hvaða verk ég set upp.

Þar fyrir utan fannst mér þetta eiga vel heima á þessum stað þar sem þetta hefur sögulegt minni og ég hef gaman af því að rifja upp gamlar íslenskar þjóðsögur. Það er mjög leiðinlegt þegar verið er að rífa tennurnar úr listamönnum og bitið tekið úr verkum eða sýningum þeirra.“

Þrándur segir viðbúið að málverkið af Útlendingastofnun muni vekja enn harðari viðbrögð sem þurfi alls ekki að vera svo slæmt þar sem hlutverk listarinnar sé ekki síst að ögra og vekja hughrif og verkið, sem er varla þornað, sé því að sjálfsögðu til sölu.