Lög­reglan í þýsku borginni Düsseldorf leitar nú logandi ljósi að bíla­þjófi sem settist upp í Ferrari 288 GTO bíl frá árinu 1985, sem hann átti ekki, og ók í burtu. Bíllinn er metinn á um 2 milljónir evra, jafn­virði um 276 milljóna króna.

Maðurinn er sagður hafa ferðast með leigu­bíl í bíla­um­boðið sem er með bílinn til sölu en þar þóttist hann vera safnari sem væri mættur í þeim til­gangi að reynslu­aka bílnum. Eftir að hafa fengið grænt ljóst, settist hann upp í bílinn og var skömmu síðar á bak og burt.

Lög­reglu­yfir­völd fundu þennan fágæta sportbíl í bíla­geymslu rétt fyrir utan Düsseldorf í gær. En þjófurinn gengur enn laus og leitar lög­reglan nú að honum. Myndin hér fyrir neðan náðist af honum á bíla­sölunni og hefur lög­reglan í Düsseldorf birt hana í þeirri von að ein­hver geti borið kennsl á hann.

Bíllinn var áður í eigu norður­írska For­múlu 1 bíl­stjórans Eddi­e Ir­vine á árunum 1996 til 1999. Fjölmargir höfðu lýst yfir áhuga á því að festa kaup á bílnum en einungis 272 eintök voru framleidd af honum á sínum tíma.

Þessi maður er grunaður um þjófnaðinn.