Lög­reglu­maðurinn Wa­yne Couzens, sem er á­kærður fyrir að hafa myrt hina 33 ára gömlu Söruh E­verard þann 3. mars síðast­liðinn, þóttist vera að hand­taka E­verard fyrir brot á sótt­varnar­reglum þegar hún var á leið heim frá vini sínum í Clap­ham en þetta kom fram við réttar­höld í málinu í dag.

Að því er kemur fram í frétt BBC hafði Couzens starfað við Co­vid-eftir­lit í janúar og vissi því hvað hann væri að gera og hvernig hann ætti að sannfæra Everard. Hann var ný­kominn af tólf tíma vakt þegar hann hand­tók E­verard klukkan 21:34 3. mars og fjórum mínútum síðar var Couzens á leið með hana til Dover, þar sem hann flutti hana í eigin bíl.

Par sem var á leið fram hjá þegar at­vikið átti sér stað bar vitni fyrir dómi í dag en þar greindu þau frá því að þeir töldu að þarna væri leyni­lög­regla að hand­taka konu en þau sáu E­verard á jörðinni með hendur fyrir aftan bak.-

Gerðu þau ráð fyrir að E­verard „hlyti að hafa gert eitt­hvað af sér,“ og því væri verið að hand­taka hana. Kærasti E­verard lýsti henni sem ó­trú­lega gáfaðri mann­eskju sem ekki væri auð­velt að plata.

Málið vakti mikla reiði í Bret­landi, ekki síst hjá konum sem óttuðust um öryggi sitt í ljósi málsins, en minningar­at­hafnir og mót­mæli fóru fram víða í kjöl­farið. Á sam­fé­lags­miðlum var at­hygli vakin á því að E­verard hafi að­eins verið að labba heim.

Sak­sóknarinn sagði við réttar­höldin að fimm orð gætu lýst síðustu stundum hennar; „Blekking, mann­rán, nauðgun, kyrking, og eldur.“

Á von að allt að lífstíðarfangelsi

Eftir að Couzens hafði flutt E­verard í sinn eigin bíl keyrði hann með hana á strjá­býlt svæði þar sem hann þekkti vel til, og nauðgaði E­verard. Sak­sóknari málsins sagði það hljóta að vera að Couzens hafi tekið síma E­verard og fjar­lægt sím­kortið, sem hann reyndi síðan að eyði­leggja.

Hinn 48 ára Couzens játaði sök í málinu síð­stliðinn júlí og verður dómur yfir honum kveðinn upp síðar í vikunni en hann gæti átt von á allt að lífs­tíðar­fangelsi. Ekki er ljóst ná­kvæm­lega hve­nær E­verard var myrt en hún var í það minnsta látin fyrir klukkan hálf þrjú að­fara­nótt 4. mars, þegar Couzens stoppaði við á bensín­stöð.

Eftir það stopp keyrði Couzens að Hoads Wood í Kent, þar sem hann átti land­svæði. Skömmu síðar henti hann síðan síma hennar í sund við Sandwich en síminn fannst síðar við leit lög­reglu.

Lík hennar fannst síðan viku síðar í ferða­töskum skammt frá land­svæðinu í Hoads Wood en áður en Couzens setti hana í töskurnar hafði hann troðið líki hennar og fötum inn í í­skáp og kveikt í þeim. Couzens var síðan hand­tekinn þann 9. mars.