Hæstiréttur Íslands ómerkti í dag úrskurð Landsréttar í aðfaramáli Air Lease Corporation (ALC) gegn Isavia. Málið snýst um flugvél í eigu ALC, sem áður var á leigu hjá hinu fallna flugfélagi WOW air. Isavia hefur haldið vélinni á Keflavíkurflugvelli og krefst greiðslu á skuldum WOW í skiptum fyrir að láta vélina af hendi.

ALC höfðaði mál fyrir héraðsdómi þar sem farið var fram á að vélin yrði afhent. Var úrskurður héraðsdóms Salómonsdómur, þar sem fallist var á að Isavia mætti halda vélinni gegn greiðslu á þeim skuldum sem mætti með beinum hætti rekja til vélarinnar.

Kröfðust staðfestingar á breyttum forsendum

Isavia kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og krafðist þess að hann yrði staðfestur um annað en málskostnað. Hins vegar var þess óskað að forsendum hins kærða úrskurðar yrði breytt á þá leið að Isavia væri heimilt að halda flugvélinni fyrir öllum skuldum WOW. Fyrir Landsrétti krafðist ALC þess hins vegar að málinu yrði vísað frá, en til vara að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur.

Í Landsrétti var kröfum ALC nær alfarið hafnað. Landsréttur kvaðst ekki taka afstöðu til þess fyrir hvaða fjárhæð Isavia mætti halda vélinni, en ef rökstuðningur og forsendur réttarins eru skoðaðar má ætla að hann telji að réttur Isavia til kyrrsetningar nái til allra skulda WOW air.

Þá var greint frá því á miðvikudag í síðustu viku að Hæstiréttur hefði veitt leyfi fyrir því að ALC fengi að kæra úrskurð Landsréttar, en úrskurður Hæstaréttar var kveðinn upp í dag.

ALC samþykkti úrskurð héraðsdóms

Fyrir Hæstarétti gerði ALC aðallega kröfu um að málinu yrði vísað frá Landsrétti, en til vara að hinn kærði úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur um annað en málskostnað. Isavia krafðist þess að málinu yrði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskuður Landsréttar yrði staðfestur.

Eins og áður segir var úrskurður Landsréttar ómerktur og honum vísað aftur til meðferðar. Var það gert þar sem að Landsrétti brást heimild til að taka til umfjöllunar ágreiningsefni málsins. Hæstiréttur leit svo á að þar sem að ALC hafði farið fram á staðfestingu héraðsdóms í kæru sinni til Landsréttar hafi félagið viðurkennt að Isavia væri heimilt að halda flugvélinni kyrrsetri. Var því ekki efni til að endurskoða forsendur héraðsdóms, heldur bar Landsrétti að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda hans fyrir henni og leysa síðan einvörðungu úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í héraði.

Hæstiréttur tók því enga afstöðu til deiluefni málsins og verður farþegaþotan því áfram kyrrsett á Keflavíkurflugvelli þar til niðurstaða fæst í málið.

Isavia lýsir sig sigurvegara

Samkvæmt yfirlýsingu Isavia í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar telur Isavia að rétturinn sé fyrst og fremst að bregðast við þeirri staðreynd að ALC kærði ekki úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og meðferð málsins fyrir Landsrétti eftir það.

Sú staðreynd að ALC kærði ekki úrskurð héraðsdóms til Landsréttar hafi falið í sér yfirlýsingu ALC um að félagið væri sammála kröfum og röksemdum Isavia. Við þær aðstæður bar Landsrétti að verða við óbreyttum kröfum Isavia í málinu og hafna þegar af þeirri ástæðu innsetningu, eins og fram kemur í niðurstöðu Hæstaréttar.

Isavia sé þeirrar skoðunar að dómur Hæstaréttar staðfesti efnislega afstöðu Landsréttar til túlkunar á beitingu 136. gr. laga um loftferðir, en í þeirri grein er að finna kyrrsetningarheimild Isavia. Málinu hafi nú verið vísað aftur til Landsréttar. og vænta megi að Landsréttur taki það til meðferðar og staðfesti kröfur Isavia eins og þær lágu fyrir Landsrétti, auk ákvörðunar um málskostnað.

Dóm Hæstaréttar um málið má nálgast hér.