Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður verður fulltrúi Samfylkingar í undirbúningskjörbréfanefnd á Alþingi sem tekur til starfa á morgun eftir að landskjörstjórn úthlutar þingsætum á grunni kosningaúrslita. Nefndin mun leggja tillögur fyrir þingið um hvaða þingmenn teljist réttkjörnir eða hvernig skuli bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp í Norðvesturkjördæmi.
Heimildir Fréttablaðsins herma að Svandís Svavarsdóttir verði fulltrúi VG í undirbúningsnefndinni. Blaðið hefur ekki upplýsingar um fleiri nöfn. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, staðfestir að Þórunn verði fulltrúi flokksins í nefndinni.
Það gæti orðið snúið fyrir nefndina að sameinast um tillögur til að leggja fyrir Alþingi sem hefur úrslitavald í að ákvarða hvaða þingmenn skuli inni eða úti. Þá hefur MDE fellt áfellisdóm um það fyrirkomulag að þjóðþing úrskurði hvort þingmenn þess séu réttkjörnir.
Tíu þingmenn hreyfðust út eða inn eftir endurtalninguna í NV-kjördæmi. Landskjörstjórn hefur úrskurðað að meðferð kjörgagna hafi ekki verið fullnægjandi í kjördæminu.