Þórunn Svein­bjarnar­dóttir þing­kona Sam­fylkingarinnar segir Sig­hvat Björg­vins­son hafa farið með rangt mál í grein sem hann skrifaði í Frétta­blaðið ný­lega. Um fylgis­tölur flokksins þegar Ingi­björg Sól­rún leiddi flokkinn í Al­þingis­kosningum.

Þórunn segir að það sé ekki rétt að flokkurinn hafi beðið af­hroðs, eins og Sig­hvatur orðar það, heldur hafi hann fengið 26,8% fylgi og bendir á að í næstu kosningum hafi flokkurinn fengið 29,8 prósent fylgi þegar Jóhanna Sigurðar­dóttir leiddi flokkinn.

Grein Sig­hvats fjallaði þó ekki í aðal­at­riðum um þetta, heldur „undir­búna at­lögu“ Ingi­bjargar Sól­rúnar að Jóni Bald­vini Hannibals­syni en þá svaraði hann Face­book-pistli Ingi­bjargar Sól­rúnar sem hún skrifaði um Jón Bald­vin eftir að Stundin birti bréf og dag­bókar­færslur konu sem Jón Bald­vin á að hafa á­reitt kyn­ferðis­lega þegar hún var barn. Um það hefur Þórunn einnig ýmis­legt að segja.

„Margt má segja um varnar­múrinn sem gamlir kratar hafa slegið upp í kringum fyrr­verandi for­mann Al­þýðu­flokksins og kannski ber okkur að virða þeim til vor­kunnar að þeir eigi ekki sam­leið með sam­tímanum. En þá kröfu verður að gera að menn geri til­raun til þess að skilja #MeT­oo-byltinguna og á­hrif hennar. Konur á öllum aldri sjá nú, margar í fyrsta sinn, tæki­færi til að kasta af sér þöggunar­hlekkjum sam­fé­lags sem til skamms tíma stóð saman um að trúa þeim ekki og gera lítið úr of­beldinu sem þær hafa mátt þola. Karlar geta ekki lengur skákað í skjóli valda­kerfis sem var hannað til að verja þá. Sá tími er sem betur fer að líða undir lok,“ segir Þórunn í pistli sínum.

Karlar geta ekki lengur skákað í skjóli valda­kerfis sem var hannað til að verja þá. Sá tími er sem betur fer að líða undir lok

Hún segir að lokum að það sé ömur­legt að fylgjast með „svo­kölluðum eðal­krötum“ reyna að koma höggi á Ingi­björgu Sól­rúnu og að hún voni að til­vonandi for­maður flokksins, Krist­rún Frosta­dóttir, fái að njóta sann­mælis.