Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, var endurkjörin í embættið til tveggja ára á aðalfundi bandalagsins sem fram fór í gær. Hafði hún betur í kosningu gegn Maríönnu H. Helgadóttur, formanni Félags íslenskra náttúrufræðinga.

Uppstillingarnefnd BHM hafði gert tillögu um að Þórunn yrði áfram í embætti. Á fundinum kom hins vegar fram mótframboð frá Maríönnu og þurfti því að kjósa á milli þeirra tveggja. Hlaut Þórunn 70 atkvæði en Maríanna 49.

Sjálfkjörið var í önnur embætti og trúnaðarstöður sem kosið var um. Þá voru á fundinum samþykktar ýmsar ályktanir.

Í ályktun um kjaramál segir að viðsemjendur félagsins vilji gera langtímasamning en engar tillögur hafi verið lagðar fram sem styðji þá fyrirætlan.

„Flöt krónutöluhækkun launa samrýmist ekki kröfum aðildarfélaga BHM um eðlilegan ávinning háskólamenntunar á íslenskum vinnumarkaði,“ segir í ályktuninni. Þá er gerð krafa um að laun háskólamenntaðra verði ekki lægri en 500 þúsund á mánuði.