Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi þingflokksformaður er látin, 56 ára að aldri. Frá þessu greina nánustu aðstandendur hennar.
Hún lét af þingmennsku í janúar síðastliðnum vegna baráttu sinnar við krabbamein. Þórunn lætur eftir sig eiginmann og þrjú börn. Hún sat á þingi fyrir Framsókn og hafði verið þingmaður flokksins frá árinu 2013. Hún leiddi lista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar.
Þórunn greindi frá því milli jóla og nýárs í fyrra að hún hefði greinst aftur með krabbamein eftir að hafa lokið meðferð. Þórunn hefur ávallt verið opinská með veikindi sín. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands árið 1984. Þá starfaði hún sem sauðfjárbóndi frá árinu 1986. Hún var grunnskólakennari árin 1999 til 2008 og skólastjórnandi 2005 til 2008.
Þá starfaði Þórunn sem verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands, nú Austurbrú, 2008 til 2013. Árið 2010 tók hún sæti í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 2010 til 2014, þar af þrjú ár sem oddviti.
Hún ræddi veikindin á opinskáan hátt í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins í mars 2019 þegar hún var í hléi frá þingsstörfum.
„Ég er mjög lánsöm í lífinu, á góða fjölskyldu, góða vini og hef bara verið heppin með svo margt. Almennt verið heilsuhraust og getað gert það sem mér finnst skemmtilegt. En mér hefur aldrei fundist að ég ætti endilega að sleppa við allt. Það getur alveg eins verið ég eins og hver annar sem fær krabbamein. Einhverra hluta vegna var þetta í boði núna.“