Þórunn Egils­dóttir, þing­maður Fram­sóknar­flokksins og fyrr­verandi þing­flokks­for­maður er látin, 56 ára að aldri. Frá þessu greina nán­ustu aðstand­end­ur henn­ar. 

Hún lét af þing­mennsku í janúar síðast­liðnum vegna bar­áttu sinnar við krabba­mein. Þórunn lætur eftir sig eiginmann og þrjú börn. Hún sat á þingi fyrir Fram­sókn og hafði verið þingmaður flokksins frá árinu 2013. Hún leiddi lista flokksins í Norð­austur­kjör­dæmi fyrir síðustu Al­þingis­kosningar.

Þórunn greindi frá því milli jóla og ný­árs í fyrra að hún hefði greinst aftur með krabba­mein eftir að hafa lokið með­ferð. Þórunn hefur á­vallt verið opin­ská með veikindi sín. Hún út­skrifaðist með stúdents­próf frá Verzlunar­skóla Ís­lands árið 1984. Þá starfaði hún sem sauð­fjár­bóndi frá árinu 1986. Hún var grunn­skóla­kennari árin 1999 til 2008 og skóla­stjórnandi 2005 til 2008.

Þá starfaði Þórunn sem verk­efna­stjóri hjá Þekkingar­neti Austur­lands, nú Austur­brú, 2008 til 2013. Árið 2010 tók hún sæti í sveitar­stjórn Vopna­fjarðar­hrepps 2010 til 2014, þar af þrjú ár sem odd­viti.

Hún ræddi veikindin á opinskáan hátt í ítar­legu við­tali í helgar­blaði Frétta­blaðsins í mars 2019 þegar hún var í hléi frá þingsstörfum.

„Ég er mjög lán­söm í lífinu, á góða fjöl­skyldu, góða vini og hef bara verið heppin með svo margt. Al­mennt verið heilsu­hraust og getað gert það sem mér finnst skemmti­legt. En mér hefur aldrei fundist að ég ætti endi­lega að sleppa við allt. Það getur alveg eins verið ég eins og hver annar sem fær krabba­mein. Ein­hverra hluta vegna var þetta í boði núna.“