Strand­veiðar hófust á mánu­dags­morgun á þessu vori. Meðal fyrstu manna á sjó var flug­stjórinn Einar Dag­bjarts­son á Grindjánanum GK-169, bát sem hann á með bræðrum sínum.

„Það eru ein­hverjir þörungar að spilla fyrir okkur, sjórinn er gruggugur og fis­keríið tregt. Það eru dá­lítil von­brigði,“ segir Grind­víkingurinn og flug­stjórinn Einar Dag­bjarts­son þegar ég hringi í hann um miðjan dag á mánu­dag að kanna afla­brögð á fyrsta degi strand­veiða. „Ég er bara kominn með rúm 300 kíló af þorski í dag en má taka 774.“

Einar er á bræðraf­leytunni Grindjánanum og kveðst hafa verið kominn á miðin á falla­skiptum tuttugu mínútum fyrir fimm.

„Það kom bara ekki kvikindi til að byrja með. En maður verður að vera þolin­móður, þetta mjatlast og veðrið er æðis­legt,“ segir Einar. Getur þó ekki stillt sig um að rifja upp að í fyrra hafi hann einu sinni verið kominn inn klukkan átta um morguninn með skammtinn. „Þá var því­líkt mok hér inni í Sand­vík.“

Þótt Einar hafi komist á sjó í örfá skipti í vetur kveðst hann lengi hafa beðið þessa dags. „Móður­afi minn var út­vegs­bóndi í Gríms­ey og það er svaka­lega gaman að halda í þessa hefð. Ég ætla snemma í fyrra­málið út á Sel­vogs­banka. Við verðum að berjast. Það verður al­ger blíða hjá okkur næstu daga, meðan norðan­áttin varir. Nokkrir Sand­gerðingar eru komnir á miðin hér og við Grind­víkingar eltum líka stundum veður og fis­kerí til Sand­gerðis og Þor­láks­hafnar.“

Grindjáninn er Sómi 860. „Báturinn er öflugur, gengur 22 mílur þegar best lætur, og tekur þrjú tonn, hann er alveg full­kominn í strand­veiðarnar,“ segir Einar og telur að þorsk­stofninn myndi ekki hrynja þó að króka­veiði­dagar sumarsins væru fleiri en 48. „Heyrðu, það eru komnir tveir fiskar á eina rúlluna, ég verð að ná þeim!“